137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að stjórnarflokkarnir gera sér fullkomlega grein fyrir þeirri stöðu sem útgerðin er í núna, fyrir skuldsetningu hennar og fleira. Það verður ekki rasað um ráð fram að neinni breytingu á því sem varðar fiskveiðistjórnarkerfið. (Gripið fram í.) Allir hagsmunaaðilar munu setjast að borði til þess að skoða þær leiðir sem menn hafa uppi. Ég geri ráð fyrir og hef heyrt að útvegsmenn hafa líka ákveðnar hugmyndir um leiðir og breytingar. Við munum auðvitað skoða þær.

Við munum líka fara yfir fyrningarleiðina og leggja fram útreikninga okkar um áhrif af henni að því er varðar sjávarútveginn og einstakar byggðir. Ég held að menn eigi að taka á málum af rósemi. Mér finnst allt of mikil taugaveiklun í kringum þetta sjávarútvegsmál og við bjóðum að allir hagsmunaaðilar setjist nú strax að borði um þetta mál (Gripið fram í.) til þess að fara yfir stöðuna (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og þá möguleika sem uppi eru. Okkur hefði verið í lófa lagið með meiri hluta hér á þingi að fara bara beint í fyrningarleiðina eins og stendur í stjórnarsáttmálanum. En við viljum byrja á því að tala við hagsmunaaðila og athuga hvort hægt sé að ná sátt um þetta mál. (Forseti hringir.) En fyrningarleiðin hefur ekki verið slegin út af borðinu, svo það sé alveg ljóst.