137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:04]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég vil hnykkja á því sem hér hefur komið fram áður að það er krafist trúnaðar af þingmönnum um þetta mál. Á sama tíma fara ráðherrar í fjölmiðla með málið og leggja það rangt upp. Þeir eru að blekkja þjóðina í fjölmiðlum um þetta mál og það er algjörlega óásættanlegt.

Hæstv. forsætisráðherra tók þátt í þeirri ríkisstjórn sem blekkti þjóðina í átta mánuði um hvert stefndi með efnahagsmálin. Þetta er ítrekaður einbeittur brotavilji hjá forsætisráðherra Íslands að blekkja þjóðina og blekkja þingið. Þetta er óásættanlegt og ég fer einfaldlega að krefjast þess að þetta fólk víki af þingi og segi af sér. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að vera með ráðamenn sem haga sér með þessum hætti. Þetta er nánast glæpsamleg athöfn sem hér fer fram, það er verið að skuldbinda þjóðina áratugi fram í tímann upp á nærri því 700 milljarða a.m.k. En þessar upplýsingar eru lagðar rangt upp í fjölmiðlum (Forseti hringir.) af forsætisráðherra og ég vil fá hana hingað niður eftir (Forseti hringir.) til að ræða mál og útskýra fyrir þinginu hvað henni gengur eiginlega til.