137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Á síðu 3 í frumvarpinu stendur, með leyfi frú forseta, og er vitnað í grein sem birtist í Fréttablaðinu:

„Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með ,,ódýrum peningum“.“

Þetta stendur þarna, það er ekkert verið að gagnrýna þetta í greinargerðinni. Hvað er verið að segja þarna? Það er verið að taka eignir af sparifjáreigendum með verðbólgu eins og gert var hér í 30 ár. Ég leyfi mér að kalla þetta stuld. Kannski má kalla þetta eitthvað annað, ég veit það ekki. En þetta er tilvísun í frumvarpið sjálft.

Varðandi það að vextir séu háir á Íslandi í dag. Ég hef gagnrýnt það mikið að vextir eru mjög háir, allt of háir í augnablikinu, akkúrat í augnablikinu. Þeir hafa ekki alltaf verið það, jafnvel ekki stýrivextir. Stýrivextir voru meira að segja neikvæðir síðastliðið haust, stórlega neikvæðir. Það sem þarf að gera er að gæta að báðum aðilum. Sparifjáreigendur á ekki að líta á sem vont fólk. Sparifjáreigandi er maður eða kona sem neitar sér um eitthvað en leggur peninginn fyrir. Í staðinn fyrir að fara í ferðalag leggur sparifjáreigandi peninginn fyrir, hann neitar sér um einhver lífsins gæði. Það er sparnaður. Hann vill helst geta farið í ferðina ári seinna eða tíu árum seinna. Það er verðtrygging. Í 1. gr. frumvarpsins segir hreinlega að það megi ekki borga meira en 4% jafnvel þó að ferðir hækki um 20%. Ég veit ekki hvað má kalla það ef manneskjan á að tapa 16% á því að spara. Ég veit ekki hvað menn vilja kalla það, ég kalla það eiginlega stuld.