137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

meðferð einkamála.

32. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem er að finna á þskj. 32, 32. mál þessa þings, frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Atli Gíslason, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.

Efni þessa frumvarps er, má ég segja, gagnsókn vegna þess að rétturinn til gjafsóknar í málum sem hafa almenna þýðingu var skertur verulega með lögum sem samþykkt voru 2005. Þetta frumvarp lýtur að því að breyta lögunum aftur til fyrri vegar en ákvæðin um almenna gjafsókn í 126. gr. laganna voru sett með einkamálalögunum á árinu 1991. Þeim var síðan breytt á árinu 2005 til þrengingar þannig að inn var sett í lögin ákvæði um að við mat á efnahag — sem við viljum breyta yfir í fjárhag — við mat á efnahag umsækjanda megi eftir því sem við á einnig taka tillit til eigna og tekna maka hans eða sambýlismanns eða eigna og tekna foreldra hans ef hann er yngri en 18 ára.

Tillagan eins og hún er hér fram sett, er þess í stað að fella þetta ákvæði niður enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Eins og ég sagði áður er þetta óbreytt frá því að einkamálalögin voru samþykkt á árinu 1991. Þau lög giltu í tólf ár án nokkurra vandkvæða og það eru auðvitað mikilvæg lýðréttindi að menn geti borið mál sitt undir dóm og þar mega fjárhagsaðstæður ekki koma í veg fyrir að menn geti sótt rétt sinn, annaðhvort með sókn eða vörn eftir atvikum.

Ég vil minna á að lögsóknarbannið sem sett var á með svokölluðum nóvemberlögum sl. haust reyndist andstætt stjórnarskrá. Þar var bannað með lögum að lögsækja gömlu bankana. Það má líkja því við sams konar bann og brot á mannréttindum þegar einstaklingar hafa ekki fjárhagslega burði til þess að leita réttar síns fyrir dómi.

Eins og lögunum var breytt, sem var mjög umdeilt, á árinu 2005, var þrengt verulega að mati flutningsmanna að möguleikum almennings til þess að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru í andstöðu við hefðir sem hafa verið að þróast í öðrum lýðræðisríkjum. Með frumvarpinu er því lagt til að fella umrætt skilyrði aftur inn í ákvæðið, sem sagt að eðlilegt sé að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.

Það er mat flutningsmanna að sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu muni fela í sér að gjafsókn verði möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál er varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál er varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn, samkvæmt b-lið 1. mgr. 126. gr., verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að áfram verði í lögunum reglugerðarheimild þar sem kveðið er nánar á um skilyrði gjafsóknar. Á grundvelli laga nr. 7/2005, þeirra laga sem, eins og ég sagði áðan, þrengdu skilyrði þess að menn gætu notið gjafsóknar, gaf hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra út reglugerð, nr. 45/2008, þar sem nánar er kveðið á um skilyrði gjafsóknar. Verði þetta frumvarp að lögum þarf að gera breytingar á 5. gr. reglugerðarinnar um mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í samræmi við víkkun á heimild sem hér er lögð til.

Nú er það svo, frú forseti, að við stöndum frammi fyrir gríðarlega erfiðum verkefnum hvað varðar fjárhag ríkissjóðs og við munum innan ekki langs tíma þurfa að skera niður og leita eftir auknum skattheimildum til þess að mæta fjárlagagati upp á litla 170 milljarða kr. Það er auðvitað mjög mikilvægt að meta nauðsyn aukinna fjárveitinga í því skyni sem hér er um rætt og eins hitt, hvort mögulegt er að breyta reglugerðinni og lögum án þess að auka fjárframlög sem væntanlega mundi þá þýða að minna yrði til skiptanna. Ég hef reynt eftir atvikum að afla mér upplýsinga um þróun fjárveitinga til gjafsóknar á undangengnum árum og fékk frá dómsmálaráðuneytinu í dag þær upplýsingar að á árinu 2004 nam gjafsókn, samkvæmt þessum ákvæðum einkamálalaganna, ríflega 111 millj. kr. en var samkvæmt reikningi 2008 154 milljónir. Þetta er töluverð aukning og einkum varð aukning á milli áranna 2004 og 2005 en það hefur dregið úr aukningu á fjárveitingum til þessa málaflokks eftir að ákvæðið var þrengt með lögum nr. 7/2005.

Það yrði verkefni hv. allsherjarnefndar að afla frekari upplýsinga um möguleikana á því að setja þetta ákvæði í lög án þess að veita auknar fjárveitingar til þess og einnig, eins og ég nefndi, að meta nauðsyn þess að setja aukið fé til þessa málaflokks.

Það þarf líka, frú forseti, að afla upplýsinga frá fjármálaráðuneyti um áhrif breytinga sem þessara á fjárhag ríkissjóðs því það er nú svo að þegar þingmenn leggja fram frumvörp, öfugt við þegar ríkisstjórn leggur fram frumvörp, þá er ekki gerð krafa til þess að fyrir liggi útreikningur á því hvaða áhrif málið hefur á ríkissjóð.

Frú forseti. Ég vil einnig nefna áður en ég lýk máli mínu að gjafsóknarnefnd fjallar um allar umsóknir sem berast og metur þær, þriggja manna nefnd sem ráðherra skipar, en það er ráðherra að veita gjafsóknarleyfið.

Það mál sem hér um ræðir var áður flutt á 136. löggjafarþingi. Hér hafa auk þess verið fluttar tillögur við afgreiðslu fjárlaga nokkrum sinnum á undangengnum árum sem hníga í sömu átt.

Frú forseti. Ég legg til að við lok þessarar umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.