137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka svona vel í þessar tillögur og við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru, það er afskaplega hressandi að hlusta á ráðherrann. Eini gallinn er sá að ráðherrann er í ríkisstjórn sem talar meira en hún framkvæmir. Þessir fimm þættir sem hæstv. ráðherra minntist á eru allir góðir og gildir en hér er því miður ekkert að gerast. Það er mikill kostnaður, aðgerðaleysiskostnaðurinn er mjög mikill sökum þess að menn vinna ekki í fjármálunum, menn vinna ekki í ríkisfjármálunum, og núna um mitt árið er í fyrsta skipti verið að koma með tillögur um það sem snýr að fjármálum þessa árs. (PHB: Er það komið?) Nei, það er ekki komið enn, virðulegi forseti.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra, hann segir að þetta sé ekkert mál, allt sé tilbúið til að virkja. Eru menn sammála um það í ríkisstjórninni og ætla menn að henda út öllu í stjórnarsáttmálanum sem mun tefja það ferli? Ætla menn að gera það því að það er margt sem mun tefja það ferli? Það er fyrsta spurningin.

Hin er um lærdóminn: Finnst hæstv. ráðherra að við getum ekkert lært (Forseti hringir.) af því að hafa trúað of mikið og tekið upp gagnrýnislítið tilskipanir Evrópusambandsins?