137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé alveg skýrt er ekki meining mín að þæfa þetta mál, tefja það eða svæfa. Ég vil einfaldlega að þessu frumvarpi verði hafnað. Ég tel að þetta mál sé þannig (Gripið fram í.) úr garði gert, ég tel að þetta frumvarp eins og það liggur hérna fyrir (Gripið fram í: Verði frestað?) sé illa unnið og að engum sé greiði gerður með því, alls ekki byggðunum og ekki heldur þeim sem eiga síðan við það að búa, þeim útgerðarmönnum sem ætla sér að stunda veiðarnar á grundvelli þessarar lagasetningar, því að þessi lög eru þannig úr garði gerð.

Ég tel að það sé yfir höfuð ekki skynsamleg nálgun á mál eins og þetta að segja sem svo: Hér eiga að fara fram einhvers konar tilraunaveiðar. Ég tel miklu skynsamlegra þegar verið er að fjalla um breytingar, ég tala nú ekki um málefni heillar atvinnugreinar sem menn reyna hér að að fitja upp á breytingum á, að það sé gert með miklum sannfæringarkrafti og vissu um til hvers það muni leiða. Menn leggja mikla áherslu á það, bæði ráðherrann og meiri hluti nefndarinnar, að það þurfi að fara fram sérstök tilraun og athugun síðan eftir árið.

Er ekki skynsamlegra þegar verið er að fjalla um svona mál að menn gefi sér þá þann tíma sem nauðsynlegur er til undirbúnings og leggi síðan málið fram heildstætt þannig að menn geti a.m.k. talað af einhverri vissu um þetta mál? Það er ekki þannig að þegar verið er að setja lög um heilu málaflokkana, hvort sem það er í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum, öðrum atvinnumálum eða hvað það er, að menn séu nánast að prófa vatnið, hvort þeir treysti sér út í.

Það er ekki þannig sem menn setja lög. Menn undirbúa lögin eins vel og þeir mögulega geta, leggja þau fram og kalla eftir viðhorfum. Ég veit að meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þótti við reyndar fulldjörf í að kalla eftir slíkum viðhorfum en látum það liggja á milli hluta. Þannig vinna menn auðvitað löggjöfina. Það getur hins vegar þurft að gera breytingar á löggjöfinni einhvern tíma síðar. Það er eðlilegt. En hitt er það að þeir sem hafa ekki sannfæringu fyrir því máli sem þeir flytja eiga einfaldlega að láta ógert að flytja það.