137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sem hér um ræðir var lagt fram bæði vanbúið og illa úr garði gert á allan hátt. Það hefur verið hlutskipti okkar í minni hluta nefndarinnar að reka þann mikla flótta sem hefur brostið á í þessu máli af hálfu stjórnarliðsins og með okkar atbeina hafa verið knúnar fram ýmsar breytingar sem stjórnarliðið hefur síðan neyðst til að gera á þessu frumvarpi.

Þetta frumvarp er hins vegar þannig samansett að í því eru ýmsir hlutir sem eru sjálfsagðir og við höfum stutt við meðferð málsins. Hins vegar er strandveiðihluti þess algjörlega óviðunandi og felur m.a. í sér að með þessari lagabreytingu er verið að færa meira en helminginn af byggðakvótanum frá þeim byggðarlögum þar sem íbúum hefur fækkað, þar sem fiskvinnsla hefur dregist saman, þar sem kvóti hefur minnkað. Þess vegna er ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að styðja frumvarpið.