137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú ekki gert mér neinar vonir um að ræða mín mundi breyta afstöðu hv. þingmanns til þessa frumvarps. En fagna því þó að hv. þingmaður sér nú ýmis ljós í þessu frumvarpi sem hann horfir á jákvæðum augum og það er gott. Málið fer til meðferðar í nefnd og við skulum sjá hvað setur þar.

En ég held að það sé ómögulegt annað en að halda því fram að ákveðin hagræðing sé fólgin í þessu frumvarpi þó að við sjáum það ekki strax. Í kostnaðarmatinu er sagt að ekki sé um aukningu að ræða. Það verður þá um tilfærslu á starfsfólki að ræða. En til lengri tíma litið þá hljóta menn að sjá sparnað í því að búa til t.d. eitt atvinnuvegaráðuneyti og það er alveg augljóst að úr því verður sparnaður. Það er líka sparnaður í því fólginn að fella saman tvö ráðuneyti, dóms- og samgönguráðuneyti í eitt ráðuneyti. Það tekur allt tíma.

Hv. þingmaður er nú það vanur hér í þingsölum og að vinna að því að skoða hvernig hægt er að hagræða og ná fram sparnaði, t.d. með því að fella saman stofnanir, að hann veit að það getur falist í því kostnaðarauki til skemmri tíma litið þó að sparnaður sjáist þegar horft er til lengri tíma. Þannig eru nú bara málin og ég held að það sé einmitt málið að því er þennan málaflokk varðar.