137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hins vegar veldur það mér óneitanlega vonbrigðum að hæstv. ráðherra hefur ekki tímasett hvenær hún hyggist taka til í eigin ranni með því að fækka ráðherrum um tvo, í það minnsta. Það hefur ekki verið tímasett. Má ég þá skilja orð hæstv. forsætisráðherra þannig að það sé ekkert sérstakt forgangsmál núna þegar verið er að taka mjög erfiðar ákvarðanir á öllum stigum í hinu opinbera kerfi, að þá skuli ekki vera hægt að grípa til róttækra aðgerða eða til slíkra breytinga hjá hæstv. ríkisstjórn? Skil ég það rétt?

Og þegar hæstv. ráðherra talar um að enginn leyndarhjúpur hafi verið í hennar ríkisstjórn eða væntanlega þeim ríkisstjórnum sem hún hefur setið í, þá minni ég á að við fréttum af skilmálum af Icesave í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Við lásum um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dagblaðinu DV og fleira mætti nefna í þessum efnum.

Hæstv. forsætisráðherra vill tala um fortíðina á meðan við hér viljum mörg hver tala fyrir nýjum vinnubrögðum og ræða á opinn hátt um það hvernig við getum bætt vinnubrögðin hér á Alþingi og þá sérstaklega samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.

Ef hæstv. forsætisráðherra vill endilega festa sig í fortíðinni þá má nefna það að ég held að hún sé eini sitjandi þingmaðurinn hér á Alþingi sem setti frjálsa framsalið á í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki rétt og hver afstaða hennar sé til þess gjörnings því hún sat í ríkisstjórn þann tíma sem frjálsa framsalið var sett á.

Ég bið því hæstv. forsætisráðherra sem er þingreyndur einstaklingur að horfa fram á veginn, hætta að tala um fortíðina. Ég vil benda hæstv. forsætisráðherra á að það er mikið af nýju fólki sem kom inn fyrir þingflokk Framsóknarflokksins nú í kjölfar þessara kosninga og það ágæta fólk á ekki að þurfa að eyða hálfu ræðunum í það að tala um hvað gerðist jafnvel fyrir 25 árum. Við skulum fara að horfa til framtíðar.