137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hæstv. forsætisráðherra í sjálfsvald sett hvort hún vilji eyða megninu af ræðutíma sínum í að ræða orðna hluti og fortíðina. Jafnvel hluti sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki komið nálægt, margir hverjir. Ég bið nú hæstv. forsætisráðherra að gefa því nýja fólki sem er komið inn á Alþingi og vill vinna að málum sem horfa til framfara það svigrúm í umræðunni að skiptast á skoðunum um nútíðina og framtíðina.

Getur það verið rétt, af því við erum að fara að ræða um Icesave-samkomulagið á eftir, að við höfum orðið fyrir þeirri niðurlægjandi aðgerð að eignir okkar erlendis voru frystar vaxtalaust? En ef við skrifum undir Icesave-samkomulagið þá eru afturvirkir vextir á því samkomulagi til 1. janúar. Á meðan að eignir okkar erlendis báru enga vexti þá skulu Íslendingar gjöra svo vel að borga vexti afturvirkt. (Forseti hringir.) Getur þetta verið rétt, hæstv. forsætisráðherra, þannig að við tölum um mál (Forseti hringir.) sem snerta núið og ekki síst framtíðina?