137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[19:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði, sem flutti hér málefnalega og hófstillta ræðu, að það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að hv. alþingismönnum verði gerð aðgengileg gögn og að þeim gefist tími til að setja sig mjög vel inn í þetta mál, ég mæli eindregið með því að það verði gert, (Gripið fram í: Hvað gefa Bretar langan tíma?) skoði það frá öllum hliðum, bæði göllum og kostum þess að samþykkja þessa niðurstöðu og hinum kostinum að hafna henni.

Ég get ekki gefið málflutningi sumra annarra stjórnarandstæðinga sömu einkunn og Margréti Tryggvadóttur. (Gripið fram í: Æ, æ.) Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það umhugsunarefni og nokkuð dapurlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar, skuli nú tala með þessum hætti um þetta alvarlega mál. (Gripið fram í: Þvílík vonbrigði!) Er það meiningin, er það ætlun formanns Sjálfstæðisflokksins að halda sig til frambúðar í félagsskap með formanni Framsóknarflokksins og draga dám af honum í málflutningi? Ég get ekki mælt með þeim skóla. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Þetta er …) Er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn eða þess vegna Framsóknarflokkurinn séu algerlega alsaklausir í þessu máli?

Auðvitað eru það stjórnendur Landsbankans sáluga fyrrverandi sem bera mestu ábyrgðina á þeirri ógæfu sem þetta hefur leitt yfir okkur (Gripið fram í.) en það gera líka stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þess tíma (Gripið fram í: Þú ert ekki í stjórnarandstöðu.) sem til þessa stofnaðist. (Gripið fram í: … ábyrgðin.) Liggur ekki einhver hluti ábyrgðarinnar á þessum vandræðum hjá þeim sem bjuggu þau til? (SDG: Hún liggur hjá þér …) Liggur öll ábyrgðin á þeim sem eru að reyna að leysa úr málinu? (SDG: Lestu eigin greinar.) Það mætti ætla af málflutningi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann vill skjóta sendiboðann í þessu máli en ekki boðskapinn. (Gripið fram í.)

Aðalatriði málsins er að mínu mati, frú forseti, að hér hefur enginn getað hrakið það með neinum rökum að þær fullyrðingar sem uppi hafa verið í gærkvöldi og í dag um að ákvæði þessa samnings stofni á nokkurn hátt í hættu stöðu okkar, eignum okkar og auðlindum innan lands vegna þessa máls, engin rök hafa komið fram fyrir slíku. (Gripið fram í: … samninginn.) Það er einfaldlega þannig að slíkt gæti aðeins gerst handan þess að öryggisákvæði samningsins hefðu ekki náð því að leysa vandamálin, handan þess að dómsmál hefði þá tapast erlendis og eftir að íslenska ríkið væri komið á hliðina og nánast liðið undir lok sem réttarríki, að íslenska ríkið færi í aðgerðir gegn sjálfu sér vegna eigna sinna hér innan lands. (Gripið fram í.) Slíkt geymir sagan engin dæmi um að hafi verið gert gagnvart þjóðum, ekki einu sinni þeim sem hafa orðið að játa sig sigraðar og gengið í Parísarklúbbinn og orðið að biðja um niðurfellingu skulda o.s.frv.

Hvers vegna í ósköpunum ætti það að geta gerst í þessu tilviki? Ákvæðin sem hér er vitnað til eru algerlega hliðstæð þeim sem verða væntanlega í lánasamningum við hin Norðurlöndin. Halda menn að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum fari að setja slík ákvæði inn í samning til þess að geta með krókaleiðum ásælst auðlindir Íslendinga? Nei. (Gripið fram í.) Þetta er af lagatæknilegum og samningatæknilegum ástæðum.

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að ég er hugsi yfir því hversu margir velja það að nota ræðutíma sinn til að útmála þetta mál og sjá ekkert nema hættur og vonleysi í tengslum við þetta. (Gripið fram í.) Þjónar það þeim tilgangi okkar sem þjóðar að reyna að glíma við erfiðleikana og trúa á að við ætlum í gegnum þá og sigrast á þeim sem sjálfstæð þjóð? Það kostar líka sitt að vera sjálfstæð þjóð. Það kostar m.a. það að menn bera ábyrgð á sjálfum sér, að menn reyni að standa við skuldbindingar sínar, og það hélt ég að væri það sem við ætluðum að gera. (Gripið fram í.)

Þetta er hluti af lausn þeirra vandamála sem að okkur hafa steðjað, það er það, það verða hv. þingmenn að horfast í augu við. Þetta hangir saman við fjölmörg önnur vandamál og úrlausnarefni sem við þurfum að hafa okkur í gegnum. Á meðan ég verð í einhverju hlutverki í þeim efnum verður það í trúnni á það að Ísland ætli sem sjálfstæð þjóð að glíma við þessi vandamál á eigin forsendum og sigrast á þeim en ekki gefast upp. (Gripið fram í.) Eða er það kannski það sem er á bak við málflutning sumra manna hérna sem tala endalaust um þjóðargjaldþrot og hörmungar? Er það það að þeir hafi sjálfir misst trúna á það að Ísland geti sigrast á erfiðleikum sínum? (Forseti hringir.) Það skyldi nú ekki vera?