137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi bara ekki hlustað á ræðuna sína hér í upphafi. Hann sagði þar alveg skýrt að ein mesta vá sem að ríkinu stafaði væri ef laun hjá ríkinu lækkuðu og launastrúktúr ríkisins lækkaði. Ég tel að við þurfum öll í samfélaginu núna að taka á. Það eru allir að taka á sig launalækkanir, hvort sem það er á hinum almenna markaði eða bótaþegar, og það er auðvitað þannig að við þurfum líka að leita eftir því að lækka ósamningsbundin laun.

Hér eru líka fyrirtæki sem eru í grunninn að sinna opinberum þjónustuverkefnum en eru komin algjörlega út úr korti við aðra launaþróun í landinu. Með þessari aðgerð er hafin sú vegferð að laga það. Hv. þingmaður getur komið hér með háðsglósur eins og hann vill og gert lítið úr því að sú vegferð sé hafin, en henni lýkur auðvitað ekki með því að kjararáð úrskurði um laun forstjóranna heldur mun leiða af því að launastrúktúr viðkomandi fyrirtækja og stofnana hlýtur þá líka að taka mið af því því að eftir höfðinu dansa limirnir. Þetta mun þá vonandi hafa þau áhrif inni í stofnunum að ósamningsbundin laun verði líka tekin upp þar og menn horfi á leiðir til þess að draga úr launakostnaði inni í stofnunum í kjölfarið. Ég tel allar líkur á að það verði niðurstaðan.

Það er þess vegna sem þetta er ein af mörgum aðgerðum og ekki mun standa á ríkisstjórninni, hv. þingmaður, að vinna að því í góðu samstarfi við stéttarfélög opinberra starfsmanna að ná tökum á ósamningsbundnum launagreiðslum með sama hætti og gert hefur verið á Akureyri og í Reykjavík. Í því felst ekkert lýðskrum heldur viðurkenning þess að það þarf að taka á ríkisrekstrinum alls staðar.

Hv. þingmaður virðist vera að gera því skóna hér að það eigi að skilja hin opinberu hlutafélög eftir á einhvers konar einskismannslandi ofurlauna. Því er ég bara algjörlega ósammála.