137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara þessu en það sem ég var að reyna að koma til skila hér áðan var það að með því að klippa ofan af launum í fyrirtækjum, ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum, mun sú klipping leka niður launastrúktúrinn í fyrirtækjunum. Þetta þýðir að opinber laun verða enn minna samkeppnishæf við einkageirann, sem þýðir spekileka úr ríkisgeiranum og yfir í einkageirann og ég nefndi sem mjög gott dæmi um það atgervi sem er hér á Alþingi.

Það að halda því fram að þessi áhrif sem koma fram á lengri tíma séu eitthvað sambærileg aðgerð við það sem sveitarfélögin hafa verið að gera er bara grundvallarmisskilningur hjá hæstv. tryggingamálaráðherra, grundvallarmisskilningur. Þetta eru langtímaáhrif sem munu leiða til breyttrar launasamsetningar hjá hinu opinbera og að þau verða ekki jafnsamkeppnishæf. Jafnframt minntist ég á það: Hvernig eigum við að ná í forstjóra í stofnanir og í yfirmannsstöður hjá ríkinu, sem við viljum fá þar inn vegna hæfileika þeirra, ef grunnviðmiðið eru laun forsætisráðherra sem eru allt of lág vegna þess að í lýðskruminu — þannig að við notum það orð einu sinni aftur — hafa þingmenn og ráðherrar tekið á sig launalækkanir og þóst vera að ganga fyrir með einhverri góðri fyrirmynd í því efni.