137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að geta glatt hæstv. fjármálaráðherra með góðri ræðu við þessa umræðu í dag því að að sjálfsögðu áttum við okkur öll á því, sama hvar í flokki við stöndum, að verkefnin eru afskaplega erfið. Það skal enginn neita því að það er auðveldara um að tala en í að komast að takast á við þau verkefni. Engu að síður verðum við sem störfum í stjórnmálum að hafa framtíðarsýn og sannfæra íslensku þjóðina um að það sé von í þessu landi og við séum að stefna að ákveðnu marki. Við verðum öll að einsetja okkur að tala með þeim hætti og leyfa okkur að vera bjartsýn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar vegna þess að við þurfum á því að halda, það er það sem börnin okkar og fjölskyldurnar sem eru að reyna að bjarga sér þurfa á að halda.