137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vextir af Icesave.

[15:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að það er heilmikil óvissa í þessu máli, það hefur aldrei verið dregin nein dul á það. Í því sambandi ber að skoða það öryggisákvæði sem er í samningnum, það er ekki ætlunin að ofgera greiðslugetu íslensks þjóðarbús með þessu máli. Undir það er ritað að versni staða okkar frá því sem hún var metin vera í nóvember sl. og/eða að greiðslurnar verði þannig íþyngjandi fyrir okkur að við ráðum illa við þær, ég tala nú ekki um alls ekki, verður málið tekið upp á nýjan leik. Enda dettur auðvitað engum í hug og það þjónar engum góðum tilgangi að ofgera greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins með þessu máli. Þeir sem lána almennt peninga hafa yfirleitt áhuga á því að sá sem tók lánið geti borgað það til baka, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir vel.

Þó að mönnum lítist misvel á þetta, sem eðlilegt er, getum við velt fyrir okkur hinum kostinum sem ég hef ekki heyrt hv. þingmann gera. Ef honum líst ekki á þetta, hvað leggur hann þá til?