137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það skiptir miklu máli að ná að skapa hvata fyrir atvinnulífið til þess að skapa verðmæti og við eigum mikið undir því að það takist sem fyrst. Þess vegna kallar maður líka eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn aðstoði okkur við að reisa við tiltrú á íslensku efnahagslífi.

Nú liggur til dæmis fyrir að við eigum mikið undir í því að okkur takist að klára Icesave-samningana til þess að lánshæfismat ríkisins skáni. Við vitum líka að aðildarumsókn að Evrópusambandinu er þáttur sem getur hjálpað okkur í því. Við þurfum með öðrum orðum að ganga áfram þann veg sem gerir okkur kleift að skilja milli gömlu og nýju bankanna. Við vitum að án Icesave-samninga verður ekki skilið milli gömlu og nýju bankanna. (TÞH: Ekkert samhengi þar á milli.) Jú, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Við munum þá halda áfram að reyra atvinnulífið í viðjar hávaxta, koma í veg fyrir að það geti fengið fullnægjandi lánafyrirgreiðslu í bönkum. Þetta er þess vegna mikilvægasta hagsmunamál íslensks atvinnulífs, að við lokum þessum útistandandi óvissuþáttum og vísum veginn fram á við og leggjum grunn að verðmætasköpun, (Forseti hringir.) lága vexti og efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma litið.