137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:45]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við eigum að horfa á heildina og kannski fyrst og fremst út frá þeim kostum sem við sjálf sem Íslendingar og þjóð, ríkissjóður eða Landsvirkjun stöndum á bak við og það eru virkjanirnar. Mér finnst líka mikilvægt að við skoðum alla kosti. Við höfum fram til þessa verið mjög bundin af álverunum. Það hefur verið sú stóriðja sem hefur sótt hvað mest að okkur og við höfum verið mjög fús til að taka við þeim verksmiðjum. Nú hafa verið að koma upp aðrir möguleikar, hugsanlega ekki eins mannaflsfrekir en orkufrekar fjárfestingar og þá tel ég mikilvægt áður en við höldum lengra og áður en við gleymum okkur í framkvæmdagleði að rammaáætluninni verði lokið og við séum búin að ná sátt um hvaða svæðum við ætlum að hlífa, sama hvort það er vatnsafl eða gufuorka, þannig að við séum ekki að fara inn á svæði til að eyðileggja til framtíðar.

Við eigum líka að horfa á þetta út frá mengun því að er mismunandi mengun frá stóriðju. Þau tilboð eða sá áhugi sem hefur verið að koma fram á allra síðustu árum hefur verið frá fyrirtækjum sem hafa ekki verið með eins mengandi framleiðslu og álverin hafa verið. Mér finnst að menn verði líka að horfa á þetta út frá svæðunum. Við vitum hver áhrifin eru af því að setja mjög stóran vinnustað niður á fámennt svæði og raunar hvað það hefur tekið í. Ég held að við verðum að horfa á mjög marga kosti.

Ég vil enn og aftur minna á matarkistuna Ísland. Við höfum mikla möguleika þar (Forseti hringir.) og það er það sem við getum gripið strax til og notað hluta af raforkunni í það.