137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið að ég væri að tala niður til Seðlabankans. Ég var ekki að því. Ég var að spyrja að því hvernig stæði á þessum reginmun á milli lánveitenda okkar á Norðurlöndum, hvers vegna eitt landið skæri sig úr og færi fram á það að seðlabanki lánaði til seðlabanka. Í þessu fólust ekki nokkur niðrandi ummæli til Seðlabanka Íslands, svo að það sé leiðrétt hér og nú. En þar sem ekki felst í þessu að mati hæstv. fjármálaráðherra nokkur munur, þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra á ný: Hver er munurinn nákvæmlega og út af hverju vilja hin Norðurlöndin, að Noregi undanskildum, lána íslenska ríkinu frá þeirra ríkjum en af hverju koma greiðslurnar ekki inn í Seðlabanka Íslands á kennitölu Seðlabanka Íslands? Snýr þetta eitthvað að gjaldeyrisvaraforðanum? Ég óska hreinlega eftir því að þetta mál verði útskýrt betur.