137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[14:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka þau svör sem komu frá hv. þm. Helga Hjörvar við fyrirspurn minni áðan en verð að segja eins og er að þótt ég telji til bóta að það komi eitthvert álit frá Seðlabankanum um hvaða valkostir eru fram undan, eða mögulegir, varðandi stjórn peningamála hef ég og margir aðrir orðið fyrir vonbrigðum vegna þess hvernig Seðlabankinn hefur haldið á stjórn peningamála á undanförnum árum, hvaða stefna var þar rekin. Ég tel að fleiri þurfi að koma að því verki, að endurskoðun peningamálastefnunnar, til að slík stefna verði trúverðug.

Ég minni á að þau lög sem nú eru í gildi um Seðlabankann marka og ramma alla umgerð peningamálastefnunnar, verðbólgumarkmiðið sem sett var. Umgjörð þess markmiðs er enn þá sú sama og var þegar peningamálastefnuna rak í strand á síðustu mánuðum vegna þess að það var verið að reyna hið ómögulega, með því að halda uppi miklu hærri vöxtum á Íslandi var reynt að kalla hingað til landsins erlent fjármagn — sem við í daglegu tali köllum jöklabréf — til að gera gengi krónunnar of sterkt til að halda niðri verðbólgu. Þessi sami rammi er enn í gildi þannig að ég kalla eftir því að ríkisstjórnin reki svolítið á eftir því verki að endurskoða þessa stefnu, ekki bara innan veggja Seðlabankans heldur líka með því að kalla fleiri aðila til. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að enginn er dómari í eigin sök. Og þó að þeir sem starfa í Seðlabankanum séu allir af vilja gerðir og vilji gera allt hið besta fyrir land og þjóð er þetta svo stórt mál að mun fleiri þurfa að koma að þessu en bara Seðlabankinn.