137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:08]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil, líkt og aðrir hv. þingmenn, óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn í dag og fagna yfirlýsingu ráðherra varðandi endurskoðun á málefnum Landhelgisgæslunnar. En jafnframt vil ég tala um það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi áðan, þ.e. um samlegðaráhrif tveggja stofnana, annars vegar Landhelgisgæslunnar og hins vegar Varnarmálastofnunar. Ég held að við þurfum við þessar aðstæður að íhuga og skoða mjög alvarlega sameiningu og samstarf þessara tveggja stofnana við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í íslensku efnahagslífi og þá þurfum við að líta til hagræðingar og alls kyns samlegðaráhrifa.

Ég vil líka í þessu samhengi, frú forseti, nálgast þessa umræðu frá svolítið öðrum sjónarhóli og nefna að ég tel að við skoðun á samstarfi og sameiningu þessara tveggja stofnana beri okkur jafnframt að líta til þeirrar starfsemi sem nú er á Reykjavíkurflugvelli. Ég held að það sé full ástæða til þess að skoða hvort ekki sé hægt að hagræða og leggja saman og fá út ákveðinn sparnað með því að flytja einfaldlega starfsemi Reykjavíkurflugvallar á Keflavíkurflugvöll og sameina ákveðna þætti í starfsemi flugvallarins, í Varnarmálastofnun og Landhelgisgæslunni. Það er mín bjargfasta skoðun og hefur verið lengi og ég held, sérstaklega við þær aðstæður sem núna eru í íslensku efnahagslífi, að íslenska þjóðin hafi tæplega efni á því að hafa tvo flugvelli í tæplega 50 km fjarlægð hvor frá öðrum. Ég legg það því inn í umræðuna, frú forseti, (Gripið fram í.) þó að það sé kannski ekki það sem verið er að ræða hér, að Varnarmálastofnun og Landhelgisgæslan verði einfaldlega sameinaðar og að byggð verði upp ein öflug stofnun og alþjóðlegur flugvöllur, innanlandsflugvöllur í Keflavík.