137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Ástæðan fyrir því að ákvæði neyðarlaganna var sett sem varðaði sparisjóðina var einfaldlega sú að það var alveg ljóst mál að ýmsir þeirra færu lóðbeint á hausinn nema ríkisvaldið kæmi til. Þess vegna var þetta ákvæði sett inn og mér er það mætavel ljóst.

Eins og hv. þingmaður rakti hins vegar er ekki hægt að lesa beint af 2. gr. neyðarlaganna að þar sé gert ráð fyrir þessari niðurfærslu, enda hefði að sjálfsögðu ekki þurft að koma með 7. gr. þessa frumvarps sem felur í sér beina heimild til að færa niður stofnfé ef heimildin hefði verið ótvíræð. Hv. þingmaður viðurkenndi raunar að þessi heimild væri óljós og kallaði á einhverja lagaþrætu og þess vegna væri verið að skera úr henni með því að setja þetta ákvæði hér inn.

Það sem við hv. þingmaður erum hins vegar algjörlega ósammála um er að niðurfærsla stofnfjárins sé forsendan fyrir því að laða að nýja fjárfesta. Ég vek einfaldlega athygli á því að raunveruleikinn er þessi: Fyrir litla sparisjóði er vonin fólgin í tvennu, annars vegar að fá aðkomandi fjármagn ríkisvaldsins og hins vegar að fá stofnfjáreigendur og fólk í héraði til að leggja sjóðnum til viðbótarstofnframlag. Ég tel mjög ólíklegt að það verði hægt ef búið er að svíða niður stofnfjáreigendurna þannig að þeir beri af því skaða.

Þess vegna hef ég varpað fram þeirri hugmynd sem reyndar kom hér til tals fyrr í dag að sett yrði einhvers konar gólf í þetta þannig að menn væru ekki í frjálsu falli með stofnféð. Ég hef líka vakið athygli á því að eins og menn hafa talað um þessi mál hér í dag blasir við að í mörgum sparisjóðum verður stofnféð fært mjög verulega niður, kannski niður í núll, kannski niður í einhverja lága upphæð, og þá er auðvitað ljóst í hvað stefnir.