137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir verra að komið skuli vera fram í 2. umr. og hv. framsögumaður meirihlutaálitsins skuli ekki gera sér grein fyrir þeim reginmun sem er á stofnfé og hlutafé. Eins og ég rakti áðan er sá munur á að verðmæti hlutafjár ræðst af öðrum þáttum, m.a. og sérstaklega markaðsvirði þeirra fyrirtækja sem um er að ræða. Verðmæti stofnfjár er hins vegar reiknað út eins og kemur fram í 65. gr., þar er framreiknað innborgað stofnfé og það er verðmetið, algerlega án tillits til þess hvert er eiginfjárhlutfall sparisjóðanna. Þess vegna er svo mikilvægt að árétta þann mun sem þarna er á.

Það sem ég er einfaldlega að segja er þetta: Ég tel að sú leið sem hv. þingmaður er að tala fyrir, þ.e. sú leið að færa niður stofnfé til að laða að nýja fjárfesta, sé dæmd til að mistakast. Hún er ekki líkleg til að ná árangri einfaldlega vegna þess að umhverfið er þannig á starfssvæðum þessara sparisjóða að það munu ekki koma nýir fjárfestar þó að stofnféð verði fært niður. Þess vegna er langlíklegast að afleiðingin af öllu þessu verði sú að veikja þá aðila sem líklegastir eru til að vilja að öðru jöfnu koma með fjármuni inn í sparisjóðina og þess vegna óttast ég að þessar björgunaraðgerðir mistakist. Og þó að hv. þingmaður og aðrir þingmenn sem hafa verið að tala fyrir þessu máli séu að reyna að róa stofnfjáreigendur með því að segja sem svo að þessi niðurskrift verði mjög væg þá er það aðeins í öðru orðinu. Í hinu orðinu er greinilega verið að segja, og búa menn undir að þessi niðurskrift verði veruleg þegar verið er að taka tillit til raunvirðis í ljósi þess sem ég var að segja, að vegna aðstæðnanna er eigið fé margra sparisjóða lítið sem ekkert.