137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:21]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Ég er raunar að sumu leyti sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað veruleg óvissa, ekki bara í þessu máli heldur ýmsum öðrum sem tengjast hruninu. Þó að við horfum fram hjá Landsbankanum liggur auðvitað heldur ekki nákvæmlega fyrir hvað kemur t.d. út úr búum Kaupþings og Glitnis og annarra banka sem fallið hafa, þar á meðal hversu mikils virði eignasöfnin verða sem hafa verið flutt af gömlu bönkunum til hinna nýju. Það er mikil óvissa um margt og m.a. eignasafn Landsbankans en það hefur samt verið skoðað betur en flest.

Í Icesave-samkomulaginu er gert ráð fyrir því — og það er talið mjög varfærið mat — að eignir Landsbankans dugi fyrir þremur fjórðu af forgangskröfum. Skilanefnd Landsbankans hefur gefið út mat sem er talsvert hærra, þ.e. um 82–83% þannig að í samanburði við það er þessi 75% tala tiltölulega hógvær. Ég ætla ekki að lofa því að við náum a.m.k. 75% en tel það þó mun líklegra en ekki.