137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á lykilatriði í málflutningi sínum áðan, þ.e. hvort gert hafi verið ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn og tryggingalöggjöfin gerðu ráð fyrir slíku hruni og varð. Ég held að það sé orðið býsna ljóst að þeir sem færastir eru í því að meta þessa hluti telja að svo hafi ekki verið. Það kemur heim og saman við það sem ég vitnaði í í málflutningi mínum fyrr í kvöld að í skýrslu sem mig minnir að hafi komið frá franska Seðlabankanum sé fyrirvari um að verði slíkt hrun sem hér varð gildi þetta ekki. Það er lykilatriði. Álit Elviru Méndez Pinedo, doktors í Evrópurétti sem ég vitnaði líka í og talaði á borgarafundi um daginn, er að löggjöf Evrópusambandsins mæli ekki fyrir um tilvik sem þessi um slíkt hrun. Það er því alveg ljóst að þarna er brotalöm í kerfinu og við gjöldum fyrir það, við eigum að gjalda fyrir lélega löggjöf hjá Evrópusambandinu.

Ég vona hins vegar að við getum treyst því að mál þetta verði ekki keyrt í gegnum þingið af neinu offorsi. Því er mjög mikilvægt að við fáum að vita að þingið fái þann tíma og þá fjármuni, eins og fram kom í spurningu frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, sem þarf til að mynda sér skoðun og rannsaka þetta mál því að það mun kosta fullt af peningum, það er alveg ljóst.

Að endingu vil ég koma því á framfæri að það hlýtur að skipta máli í stóru myndinni ef það er rétt sem fram kom fyrr í kvöld að heildarskuldir (Forseti hringir.) þjóðarbúsins séu komnar yfir 200%.