137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að ríkisstjórnin muni koma þessu máli gegnum þetta Alþingi eins og það liggur fyrir. Ég er næstum örugg um að það verði þannig. Þess vegna vil ég fá að vita hvernig ríkisstjórnin hugsar sér þá að borga þessa hluti. Hæstv. fjármálaráðherra er sammála því og veit það náttúrlega mætavel að það verður ekki gert öðruvísi heldur en með auknum gjaldeyristekjum. Ég vil að menn setji fram þetta plan strax. Ég vil að menn geri það strax. Þetta mál er nú í umfjöllun í þinginu. Það er verið að leggja frekari skuldir á þjóðina. Mörg mikilvægustu fyrirtæki landsins eru komin í þannig vanda að óvíst er um það hvernig þeim muni ganga að fá lánafyrirgreiðslur. Ég get nefnt orkufyrirtækin sem dæmi og ég geri ráð fyrir því að það verði líka á sviði orkunýtingar sem við þurfum að afla gjaldeyristekna. Þetta eru mjög vond tíðindi. Þetta eru alveg skelfileg tíðindi ofan í það sem þegar er, að auðlindanýtingin og þessi staða í heiminum hafi þau áhrif að það verði bara ansi erfitt að nýta þessar auðlindir núna á næstu árum vegna þess hvernig ástandið er. Við vitum því ekki á hvað við eigum að stóla núna. Þess vegna verður hæstv. fjármálaráðherra að koma fram með það hvernig menn hugsi sér að teikna þetta plan. Tíminn hefur verið nokkur til að gera það. Það verður ekkert lengur með það beðið. Þetta er það brýnasta verkefni sem fram undan er núna. Það er akkúrat þetta að velta fyrir sér hvernig við ætlum að afla þessara tekna.

Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að einhenda sér í það en vil að lokum segja að við fulltrúar í fjárlaganefnd munum auðvitað spyrja allra þessara spurninga sem ég hef lagt fram hér og við munum fara fram á að fá við því skjalfest svör svo við getum tekið afstöðu í þessu mikilvæga máli á einhvern skynsamlegan hátt.