137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur góð markmið eins og hér hefur komið fram en þau markmið dreg ég mikið í efa að náist með þessu frumvarpi sem nú er að verða að lögum. Það er vanbúið og það skortir framtíðarsýn og á því eru miklir ágallar, ágallar sem við í minni hlutanum höfum bent ítrekað á og höfum unnið af heilum hug að því að reyna að koma þessu máli til bjargar. Við höfum ekki haft erindi sem erfiði og því miður stefnir því hér í að við verðum með ríkisvædda sparisjóði sem gengur gegn markmiðum sparisjóðakerfisins. Það hefur ekki verið hlustað á tillögur um að bjarga stofnfjárkerfinu með því að setja einhvers konar gólf. Það hefur ekki verið hugsað fyrir útgöngu ríkisins. Ég get því ekki stutt þetta frumvarp. En þar sem stjórnvöld telja þetta nauðsynlegt til að geta komið með eigið fé inn í sparisjóðina þá vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim gjörningi og því greiði ég ekki atkvæði.