137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lesið þessi orð sem eftir mér voru höfð í Fréttablaðinu, ef ég man rétt, en kannast hins vegar ekki við að hafa sagt þetta með þessum hætti. Ég útskýrði það að Framsóknarflokkurinn vildi fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, það er stefna flokksins, það þarf ekkert að deila um það. Hvað skilyrðin varðar skil ég vel að hæstv. utanríkisráðherra falli sú túlkun sem komið hefur fram hér fyrr í dag og auðvitað er það eðlilegt að menn vilji túlka hlutina hver á sinn hátt. Það er ekki bara Biblían sem er þess eðlis að menn vilji hver leggja sína túlkun á hana.

Hins vegar er alveg ljóst að ég talaði mjög skýrt á flokksþinginu hvað þessi skilyrði varðaði. Það gerði líka annar formannsframbjóðandi, Höskuldur Þór Þórhallsson, og málflutningur okkar naut töluverðs fylgis, ég held að samanlagt höfum við verið með 82% fylgi svo að sá skilningur sem leggja ber í þetta er að mínu mati ótvíræður.