137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til þess að lesa gaumgæfilega það sem um þetta mál er ritað í nefndaráliti meiri hlutans og kannski líka að lesa gaumgæfilega ræðu mína þegar hún verður aðgengileg þar sem ég ræddi líka þessi skilyrði. Breytingartillaga meiri hlutans við þingsályktunartillöguna hnykkir einmitt á þessu sérstaklega.

Af því að þingmaðurinn ræddi sérstaklega um að samninganefnd Samfylkingarinnar ætti að semja við Evrópusambandið þá vil ég bara undirstrika það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í sínu andsvari að þó að málið sé stjórnskipulega á forræði utanríkisráðherra er einmitt ætlunin að tryggja náið samráð á milli þings og framkvæmdarvalds með aðkomu allra stjórnmálaflokka, þar með talið Framsóknarflokksins, að því ferli sem verður farið í verði þessi tillaga samþykkt.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt og það eru ekki innantóm orð, frú forseti, það er ætlun okkar sem að þessu máli stöndum að þannig verði að málum staðið og ég vona að formaður Framsóknarflokksins komi með í þann leiðangur til þess að standa vörð um þessa meginhagsmuni ef Alþingi samþykkir þessa tillögu.