137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Sérkennilegur þótti mér kaflinn um annan stjórnarflokkinn og sannfæringu hans. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa undirstrikað það í þessu máli að eins og í öðrum málum muni þeir fylgja sannfæringu sinni og ég veit ekki til þess að nokkur hafi gert athugasemdir við það.

Ég hlýt að spyrja um sannfæringu hv. þingmanns því að ég fæ ekki betur séð en að formaður Framsóknarflokksins hafi tekið stefnu flokksins og sína eigin sannfæringu og stungið henni undir stól og ætli núna að taka upp tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki vegna þess að það sé sannfæring þingmannsins heldur vegna þess að hann ætlar að stunda klækjastjórnmál af því að hann sér í því hugsanlegt færi á stjórninni og þá skiptir sannfæring hans eða samþykktir Framsóknarflokksins í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar engu máli.

Tillagan um tvöfalt þjóðaratkvæði, virðulegur forseti, virðist mér þess vegna ekki snúast um sannfæringu þingmanna heldur bara gamaldags bellibrögð í pólitík.