137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tel þörf á að gera grein fyrir atkvæði mínu við þessa atkvæðagreiðslu. Ég styð tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur vegna þess að ég tel að ef á annað borð verði farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið sé rétt að setja þau stífu skilyrði sem fram koma í tillögu hv. þingmanns.

Ég lýsi því hins vegar yfir, eins og koma mun fram síðar í þessari atkvæðagreiðslu, að ég tel að slíka ákvörðun eigi Alþingi ekki að taka nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og persónulega er ég þeirrar skoðunar að við eigum ekki að sækja um aðild. En verði farið í þessa vegferð, svo notað sé vinsælt orðalag, tel ég að rétt sé að gera það með þeim stífu skilyrðum sem fram koma í tillögu hv. þingmanns og greiði henni því atkvæði mitt.

Vegna umræðna um skilyrði er alveg ljóst að það eru ekki skilyrði í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar, það eru óljós markmið og þau þurfa að vera miklu skýrari (Forseti hringir.) ef lagt er í þessa ferð.