137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegur forseti. Nú hefur það gerst að Alþingi hefur hafnað því að þjóðin sé spurð í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ganga skuli í Evrópusambandið. Mér finnst þetta alveg óskiljanlegt. Mér finnst óskiljanlegt að Alþingi skuli hafa fellt þá tillögu og ég skil ekki hvernig alþingismenn ætla sér að fara af stað með þetta mál í þessum búningi. Þarna höfðu ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir tækifæri til að ná um þetta mun breiðari samstöðu sem er nauðsynlegt fyrir Íslendinga í yfirstandandi erfiðleikum. Þegar við þurfum mest á því að halda að reyna að standa saman um einhverja hluti ákveður ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, að hafna því að ná þeirri samstöðu. Mér finnst þetta gríðarleg vonbrigði. (Forseti hringir.) Þetta verður til þess, virðulegi forseti, að ég segi nei.