137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

160. mál
[21:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, og um upplýsingaskyldu þeirra.

Fyrir síðustu alþingiskosningar átti sér stað mikil umræða um styrkveitingar til stjórnmálaflokkanna og frambjóðenda þeirra á árunum áður en lög um fjármál stjórnmálasamtaka tóku gildi, hinn 1. janúar 2007. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í þeim lögum ber forsætisráðherra eigi síðar en 30. júní 2010 að skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lögin og framkvæmd þeirra. Það er mat mitt að rétt sé að flýta þessari endurskoðun í ljósi þeirrar umræðu sem skapaðist og vegna ábendingar nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn spillingu, GRECO-nefndarinnar svokölluðu.

Í skýrslu nefndarinnar frá því apríl 2008 kemur fram að íslenska ríkinu beri að upplýsa GRECO fyrir lok október nk. um viðbrögð við ábendingum nefndarinnar. Ég ákvað því að skipa nefnd til að endurskoða lögin skömmu eftir að ný ríkisstjórn tók við í maí sl. Nefndinni var jafnframt falið að fylgja eftir og leiða til lykta hugmyndir um að Ríkisendurskoðun verði falið að gera úttekt á fjárreiðum stjórnmálaflokka fyrir gildistöku laga nr. 162/2006. Nefndina skipuðu fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, auk fulltrúa Frjálslynda flokksins og eins fulltrúa forsætisráðherra. Nefndina skipuðu Ágúst Geir Ágústsson, sem var formaður nefndarinnar, Margrét S. Björnsdóttir, Gréta Ingþórsdóttir, Drífa Snædal, Sigfús Ingi Sigfússon, Jóhann Kristjánsson og Magnús Reynir Guðmundsson.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndinni fyrir skilvirka og góða vinnu. Það er skemmst frá því að segja að í kjölfar vinnu nefndarinnar undirrituðu Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn ásamt Borgarahreyfingunni hinn 14. júlí sl. samkomulag um að Ríkisendurskoðun verði falið að veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein framlög til þeirra, auk annarra framlaga sem metin eru að fjárhæð 200 þús. kr. eða meira. Samkomulagið tekur til áranna 2002–2006 að báðum árum meðtöldum, eða til þess tíma þegar lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra tóku gildi.

Með yfirlýsingunni skuldbinda stjórnmálasamtökin sig jafnframt til að veita Ríkisendurskoðun samkvæmt bestu vitneskju allar fyrirliggjandi upplýsingar um öll bein framlög til þeirra á umræddu tímabili, auk upplýsinga um önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200 þús kr. eða meira. Þau lýsa jafnframt vilja sínum til að Ríkisendurskoðun verði með sérstakri lagaheimild veitt heimild til að veita viðtöku og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna forvala eða prófkjara innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 31. maí 2007, enda fari slík úrvinnsla og birting upplýsinga fram með fullu samþykki og þátttöku viðkomandi frambjóðenda. Loks lýsa aðilar vilja sínum til þess að Ríkisendurskoðun verði með lögum veitt sams konar heimild til að taka við og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna kosninga til æðstu embætta innan stjórnmálasamtaka á árunum 2005–2009, að báðum árum meðtöldum. Fái Ríkisendurskoðun slíka lagaheimild skora stjórnmálasamtökin á frambjóðendur sína að veita stofnuninni allar fyrirliggjandi upplýsingar um framlög til þeirra á umræddu tímabili.

Hæstv. forseti. Í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnmálasamtakanna mæli ég því hér fyrir frumvarpi sem flutt er af forustumönnum allra þeirra stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga á Alþingi og byggt er á efni yfirlýsingarinnar. Er það samdóma álit þessara stjórnmálasamtaka að samræmd upplýsingagjöf um framlög til flokkanna aftur í tímann sé besta leiðin til að auka traust og draga úr tortryggni sem skapast hefur meðal almennings á starfsemi þeirra.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að við lög nr. 162/2006 bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem Ríkisendurskoðun verði veitt heimild til að taka við og birta upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra aftur í tímann. Úrvinnsla og birting upplýsinga um framlög til einstakra stjórnmálaflokka byggist, samkvæmt ákvæðinu, á því að viðkomandi stjórnmálasamtök óski sjálf eftir slíkri úttekt. Með hliðsjón af framangreindum viljayfirlýsingum stjórnmálaflokkanna er ljóst að þau stjórnmálasamtök sem að yfirlýsingunni standa munu öll beina slíkri ósk til Ríkisendurskoðunar. Með sama hætti er það skilyrði úttektar á framlögum til einstaklinga aftur í tímann að einstakir frambjóðendur óski sjálfir eftir því að slík úttekt fari fram og miðli í því skyni upplýsingum til Ríkisendurskoðunar. Í þessu sambandi skal tekið fram að ekki þykir unnt með hliðsjón af grundvallarreglum um bann við afturvirkni laga að leggja lagaskyldu á frambjóðendur um upplýsingagjöf aftur í tímann.

Undirstrika ber að hlutverk Ríkisendurskoðunar samkvæmt ákvæðinu er að taka við upplýsingum um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og birta þær með samræmdum hætti. Þær heimildir sem lagt er til að Ríkisendurskoðun fái samkvæmt frumvarpi þessu eru í meginatriðum þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að Ríkisendurskoðun verði veitt heimild, að ósk stjórnmálasamtaka, til að taka við og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra, sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200 þús. kr. eða meira á árunum 2002–2006, jafnt til landsflokka sem allra eininga sem undir þá falla. Þó er lagt til að stjórnmálasamtökum verði heimilt að undanskilja flokkseiningar ef tekjur þeirra eru undir 300 þús. kr. á ári. Ef erindi frá stjórnmálasamtökum undanþiggur fleira en þarna er heimilað ber Ríkisendurskoðun að vísa því frá.

Í öðru lagi er lagt til að Ríkisendurskoðun verði veitt heimild, að ósk frambjóðenda í forvali eða prófkjöri innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru á árunum 2006 og 2007, til að taka við og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200 þús. kr. eða meira.

Í þriðja lagi er lagt til að Ríkisendurskoðun verði veitt heimild, að ósk frambjóðenda í kosningum til æðstu tveggja embætta, formanns og varaformanns, innan stjórnmálasamtaka, til að taka við og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200 þús. kr. eða meira á tímabilinu frá og með 2005 til og með ársins 2009.

Hvað frambjóðendur varðar er lagt til að hafi heildarfjárhæð framlaga til frambjóðenda á ársgrundvelli verið undir 300 þús. kr. geti hann beint einfaldri yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar um að svo sé án þess að tilgreina nánar eða sundurliða upphæðir. Upplýsingum skal fylgja yfirlýsing viðkomandi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda um að upplýsingarnar séu veittar eftir bestu vitneskju. Getur Ríkisendurskoðun kallað eftir nánari upplýsingum og skýringum ef hún telur annmarka á upplýsingagjöfinni.

Í frumvarpinu er lagt til að frestur til að skila upplýsingum til Ríkisendurskoðunar verði 15. nóvember 2009 en að Ríkisendurskoðun geti framlengt þann frest um allt að einn mánuð. Í 5. mgr. ákvæðisins er mælt er fyrir um að Ríkisendurskoðun skuli taka við þeim upplýsingum sem til hennar er miðlað, skv. 4. mgr., og birta með samræmdum hætti niðurstöður fyrir hver stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra. Um er að ræða heildarfjárhæð árlegra framlaga frá einstaklingum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, heildarfjárhæð árlegra framlaga frá lögaðilum samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500 þús. kr. eða meira.

Með hliðsjón af persónuverndarsjónarmiðum er ekki talið unnt að birta upplýsingar um nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög að fjárhæð 500 þús. kr. eða meira nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þeirra fyrir slíku. Slík persónuverndarsjónarmið eiga ekki við þegar um lögaðila er að ræða. Þó er talið eðlilegt að hafi lögaðili krafist trúnaðar um styrkveitingar sínar til stjórnmálasamtaka eða einstakra frambjóðenda, hvort sem það var gert við veitingu styrksins eða síðar, skuli slíkur trúnaður virtur.

Þá er í 6. mgr. kveðið á um að Ríkisendurskoðun geti sett reglur um það með hvaða hætti framlög sem ekki eru bein fjárframlög skuli metin til fjár.

Í 7. mgr. er kveðið á um að Ríkisendurskoðun skuli bundin trúnaði um allar upplýsingar sem stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra miðla til hennar samkvæmt ákvæðinu að öðru leyti er leiðir af 5. mgr.

Loks er í 8. mgr. ákvæðisins mælt fyrir um að viðurlagaákvæði laganna taki ekki til upplýsingagjafar samkvæmt ákvæðinu. Þykir rétt að tekinn sé af allur vafi um þetta en ekki verður talið að unnt sé að beita viðurlögum samkvæmt ákvæðinu þar sem það felur ekki í sér lagaskyldu til upplýsingagjafar heldur byggist á frjálsu vali viðkomandi stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu á Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.