137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta ósköp aumt af hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem flutti frumvarp með galopnum innflutningi á hráu kjöti og var harðlega gagnrýndur. Svo þegar kemur frumvarp þar sem er sýnt fram á með lagalegum rökum að hægt sé að koma í veg fyrir þennan óhefta frjálsa innflutning á hráu kjöti finnur hv. þingmaður því allt til foráttu. Mér finnst alveg furðuleg röksemdafærsla, hann veltist á hvolf í þessu máli.

Ég vil líka minna hv. þingmann á, ætli það hafi ekki verið Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn sem hafi einmitt fallið frá þessum fyrirvörum sem þarna voru? Ég minni aftur á að þegar var undanþága frá innflutningi á hráu kjöti og lifandi dýrum átti samkvæmt samningnum að endurskoða það en ekki fella niður, eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins gerði. (Gripið fram í.) Ég veit, frú forseti, að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson var að segja að þeir hefðu ekki getað gert neitt — en þeir reyndu ekkert. (EKG: Það er rangt.) Það er nefnilega því miður hinn dapri sannleikur, frú forseti.

Ég vil árétta að nú grípum við þó til þeirra varna sem mögulegt er. Frumvarpið sem nú er lagt fram tekur einmitt á því máli sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson flutti hér á síðasta þingi, það var galopið fyrir innflutningi á hráu kjöti en nú er tekið fyrir hann. (EKG: Þetta er gálgafrestur og þú veist það.)