137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar en álitið er að finna á þskj. 245, um frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins.

Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem beri heitið Bankasýsla ríkisins og heyri undir fjármálaráðherra. Þeirri stofnun er ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem nokkuð hafa verið hér til umræðu í morgun, en líftími stofnunarinnar á að takmarkast við fimm ár. Í frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir því að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefast, en nú standa vonir til þess að slíkt tækifæri hafi opnast eins og þingmönnum er kunnugt.

Nefndin ræddi á fundum sínum það álitaefni hvort koma ætti verkefnum Bankasýslunnar fyrir í hlutafélagi eða stofnun. Meiri hlutinn telur að stofnun eigi betur við þegar litið er til mikilvægis þess að stofnanir lúta almennum reglum ríkisrekstrar, þær hafa skilgreindan ramma og mjög skýra ábyrgðarkeðju, þ.e. að ráðherra ber endanlega ábyrgð gagnvart almenningi. Þá bendir meiri hlutinn einnig á að stofnanir lúta reglum upplýsinga- og stjórnsýslulaga.

Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Bankasýslu ríkisins sé heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar. Fram kom fyrir nefndinni að hér væri m.a. átt við hlutafélag um eignaumsýslu ríkisins, en lög þar að lútandi hafa nýlega verið afgreidd hér á hv. Alþingi..

Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um stjórn og forstöðu stofnunarinnar. Mælt er fyrir um að þriggja manna stjórn stofnunarinnar, skipuð af fjármálaráðherra, móti áherslur í starfi og fylgist með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu við 1. mgr. 2. gr. að einn varamaður verði skipaður í stjórnina.

Þá leggur meiri hlutinn til þá breytingu á ákvæðum um til hversu langs tíma á að skipa stjórn Bankasýslunnar og forstjóra Bankasýslunnar sem ráðinn skal af stjórninni. Í báðum tilvikum er í frumvarpinu miðað við fimm ára skipunar- og ráðningartíma en meiri hlutinn leggur til breytingu í þá veru að fella tímatakmarkið brott. Verði frumvarpið svo breytt að lögum skipar fjármálaráðherra stjórn Bankasýslu ríkisins ótímabundið og stjórnin gerir ótímabundinn ráðningarsamning við forstjóra og er í síðarnefnda tilvikinu gert ráð fyrir gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Ég vil, frú forseti, á þessu stigi vekja athygli á breytingartillögu sem ég hef flutt við þessa grein og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við b-lið 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaráðherra leggur tillögu um skipun stjórnar Bankasýslunnar fyrir viðskiptanefnd Alþingis og skipar hana að fengnu áliti nefndarinnar.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir beinni aðkomu þingsins að skipan stjórnar Bankasýslunnar til viðbótar við þær aðrar kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna í 6. gr. frumvarpsins og ég kem að síðar.

Í 4. gr. eru helstu verkefni Bankasýslunnar talin upp í tíu stafliðum.

Í a-lið er tekið fram að Bankasýslan fari með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í 4. mgr. 1. gr. segir að henni sé heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á a-lið til rýmkunar, þ.e. að í stað orðsins „fjármálafyrirtækjum“ komi: fyrirtækjum og félögum, sbr. 1. gr.

Í b- og c-lið er gert ráð fyrir að Bankasýslan sjái um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hlut í og hafi eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins, eins og hún er á hverjum tíma, gagnvart fjármálafyrirtækjum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að það sé skýrt að Bankasýslunni er ekki ætlað að taka úr sambandi ábyrgð og valdsvið bankaráða og stjórna í fjármálafyrirtækjum og leggur því til breytingar á frumvarpinu í þá veru að Bankasýslan hafi samskipti við stjórnir fjármálafyrirtækja en ekki við fjármálafyrirtækin sjálf. Ekki er um það að ræða að með stofnun Bankasýslu ríkisins takmarkist ábyrgð yfirstjórna fjármálafyrirtækja. Þau verða rekin á viðskiptalegum forsendum á ábyrgð bankaráða, stjórna og stjórnenda eins og hver önnur félög og bera þessir aðilar ábyrgð á rekstrinum líkt og stjórnendur fyrirtækja á markaði.

Við höfum hér í morgun, frú forseti, hlýtt á umræður um drög að eigendastefnu sem nýlega voru kynnt. Vegna þess atriðis sem fjallað er um í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar vil ég vekja athygli á því sem segir í drögum að eigendastefnu á bls. 5 um Bankasýslu ríkisins, með leyfi forseta:

„Bankasýslan er fagleg umsýslustofnun eignarhluta og lýtur sérstakri stjórn og starfar eftir sérstökum lögum þar sem verkefni hennar eru skilgreind með skýrum hætti. Stofnunin fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins og fara starfsmenn stofnunarinnar með eignarhluti ríkisins og atkvæðarétt þess á hluthafafundum. Stofnunin setur fjármálafyrirtækjum viðmið í rekstri með samningum, m.a. um endurskipulagningu fjármálafyrirtækja og hefur eftirlit með því að settum markmiðum verði náð. Stjórn stofnunarinnar skipar sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir fyrir hönd ríkisins aðila til setu í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja.“

Síðan kemur hér, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins sér þannig alfarið um samskipti ríkisins sem eiganda við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hlut í og tengjast eigandahlutverki þess. Bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja munu ekki eiga bein samskipti við fjármálaráðuneytið eða ráðherra.“

Áfram, með leyfi frú forseta, segir hér um bankaráð og stjórnir:

„Bankaráð og stjórnir fjármálafyrirtækja eru ábyrg fyrir rekstri einstakra fjármálafyrirtækja og geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð.“

Hér er, frú forseti, verið að ítreka það, jafnt í nefndaráliti meiri hluta hv. viðskiptanefndar sem og í drögum að eigendastefnu, að Bankasýslunni er ekki ætlað að vera neitt yfirbankaráð eða neinn yfirfrakki á fjármálastofnanirnar heldur hljóta bankaráðin og stjórnir að bera fulla ábyrgð á rekstri einstakra fjármálafyrirtækja og geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð eins og þar segir. Reyndar er meira um þetta fjallað í drögum að eigendastefnu því að þar segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Stjórnir, bankaráð og stjórnendur fjármálafyrirtækja skulu ekki hafa beint samband við fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið vegna atriða sem varða einstök fyrirtæki eða einstaklinga. Öll almenn samskipti ríkisins sem eiganda fjármálastofnana við fjármálafyrirtæki fara í gegnum Bankasýslu ríkisins.“

Frú forseti. Í d-lið 4. gr. kemur fram það sem reyndar hefur verið nefnt hér áður að Bankasýslan fari með atkvæði ríkissjóðs á hluthafafundum fjármálafyrirtækja. Meiri hlutinn leggur til að við ákvæðið verði bætt að stofnunin fari einnig með hlut ríkisins á fundum stofnfjáreigenda í sparisjóðum en gera má ráð fyrir að ríkið muni eignast hluti í sparisjóðum.

Í 5. gr. frumvarpsins er áréttað að Bankasýslan skuli kappkosta að styrkja samkeppni almennt á fjármálamarkaði. Meiri hlutinn áréttar í nefndaráliti þann skilning sinn að eigendastefna eigi ekki að hindra eðlilega samkeppni á milli fjármálafyrirtækja og tekur fram og vill árétta að lögfesting þessa frumvarps um Bankasýslu ríkisins takmarkar í engu gildissvið samkeppnislaga og eftirlit á grundvelli þeirra.

Ég vil víkja aðeins aftur að drögum að eigendastefnu, frú forseti, en þar er fjallað um þetta á bls. 2 þar sem fyrsta undirmarkmið er rakið sem er, með leyfi forseta:

„Númer eitt að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði til framtíðar. Þrátt fyrir að hluti fjármálafyrirtækja verði a.m.k. tímabundið í eigu ríkisins er mikilvægt að öflug samkeppni ríki á þessum markaði. Mikilvægt er að stjórnvöld og stjórnendur banka og annarra fjármálastofnana taki ekki ákvarðanir í tengslum við endurskipulagningu fjármálakerfisins sem draga úr eða takmarka samkeppni.“

Frú forseti. Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um hæfi stjórnarmanna og forstjóra. Leggur meiri hlutinn til breytingu á greininni í þá veru að rýmka ákvæðið þannig að við bætist að stjórnarmenn og forstjóri megi ekki hafa hlotið dóm fyrir brot á þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

Í 7. gr. er mælt fyrir um að stjórn Bankasýslunnar skipi þriggja manna valnefnd sem hafi það hlutverk að tilnefna aðila fyrir hönd ríkisins sem hafa rétt til setu í bankaráðum eða stjórnum fjármálafyrirtækja til samræmis við hlutafjáreign ríkisins. Meiri hlutinn telur brýnt að valnefndin tryggi að hlutföll kynjanna í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja og félaga verði sem jöfnust og leggur til breytingu í þá veru. Meiri hlutinn áréttar í nefndaráliti sínu að sama sjónarmið um sem jafnastan hlut karla og kvenna eigi við um þriggja manna stjórn Bankasýslunnar sem ráðherra skipar.

Í 4. mgr. 7. gr. er mælt fyrir um almenna heimild til að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda nefndinni ferilskrá sína og telur nauðsynlegt í þessu sambandi að taka fram að til þess að ákvæði þetta komi til með að virka í reynd sé nauðsynlegt að auglýsa eða kynna með einhverjum hætti að verið sé að skipa í stjórnir umræddra fyrirtækja og félaga sem ríkið fer með eignarhlut í.

Þá leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að fyrir 1. nóvember nk. gefi Bankasýslan ráðherra skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn, m.a. um hvernig til hefur tekist með stofnun hennar og framkvæmd þeirra verkefna sem undir hana heyra. En samkvæmt 8. gr. frumvarpsins yrði ráðherra veitt slík skýrsla að nýju fyrir 1. júní 2010 og þinginu síðan í kjölfarið og svo árlega eftir það.

Frú forseti. Nefndinni barst álit frá efnahags- og skattanefnd, sem er fylgiskjal með áliti meiri hluta viðskiptanefndar, en þar var m.a. fjallað um þörfina fyrir að skilgreina framtíðarskipulag innlends fjármálamarkaðar og að ákvarðanir þar að lútandi yrði að taka á faglegum grunni. Einnig var áréttað mikilvægi þess að sjónarmið um jafnrétti karla og kvenna yrðu höfð að leiðarljósi við ákvarðanir valnefndar í bankaráð og stjórnir. Þá benti nefndin á að í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins væri Bankasýslunni veitt heimild til að fara með hlut ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum stofnunarinnar, eins og ég hef áður rakið, og þar er m.a. átt við svonefnt eignaumsýslufélag. Kvaðst efnahags- og skattanefnd telja það fyrirkomulag veita starfsemi félagsins ríkari vernd gegn pólitískum áhrifum en ef fjármálaráðherra færi með hlut ríkisins. Hv. efnahags- og skattanefnd gerði við lokaafgreiðslu tillögu um að fjármálaráðherra væri heimilt að framselja eignarhlutinn í eignaumsýslufélaginu til Bankasýslu ríkisins.

Frú forseti. Við umfjöllun um málið í nefndinni var um það rætt hvort Bankasýsla ríkisins yrði að leita eftir samþykki fyrir því fyrir fram hjá Fjármálaeftirlitinu að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki og er þar vísað til ákvæða um virkan eignarhlut í 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Hvað þetta varðar bendir meiri hlutinn á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, það eru neyðarlögin svonefndu, er ríkinu veitt heimild til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum án þess að undirgangast ákvæði 40. gr. Fjármálaráðuneytið fer þannig með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum á grundvelli þessa ákvæðis og Bankasýslan hefur það hlutverk samkvæmt ákvæðum frumvarpsins að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ekki verður talið að með þessu fyrirkomulagi verði slík breyting á stöðu ríkisins sem eiganda í fjármálafyrirtækjum að sérstaklega þurfi að meta hæfi stofnunarinnar til þess að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum.

Frú forseti. Ég hef hér hlaupið á nefndaráliti meiri hluta hv. viðskiptanefndar. Þau tengsl sem þar er að finna við drög að eigendastefnu sem hér voru kynnt og þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til og þá breytingartillögu sem ég flyt hér í eigin nafni á sérstöku þingskjali.

Við 1. umr. um þetta mál vakti ég athygli á því að skilin á milli gömlu og nýju bankanna hafa dregist langt umfram það sem menn ætluðu við hrunið í október sl. Nú er útlit fyrir að þau skil geti orðið 14. ágúst nk., tíu mánuðum eftir hrun, þegar ríkið greiðir eiginfjárhlut inn í bankana allt að 271 milljarð kr. Í tíu mánuði hefur ríkið rekið þrjá nýja banka sem stofnaðir voru í kjölfar neyðarlaganna. Það er ljóst, frú forseti, að enda þótt kröfuhafar í gamla Kaupþingi og Glitni ákveði að taka yfir allt að 90% eignarhlut í Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka mun ríkið áfram verða eini eigandi, 100% eigandi stærsta bankans, Landsbankans en eiginfjárframlagið til Landsbankans er áætlað 140 milljarðar kr. og er það 10 milljörðum meira en samanlagt eiginfjárframlag til hinna bankanna tveggja, þ.e. að efnahagsreikningur Landsbankans mun verða stærri en samanlagður efnahagsreikningur hinna beggja.

Þar að auki mun ríkið verða beinn eða óbeinn eigandi að 10–12% í bönkunum tveimur, Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka, og ljóst í þriðja lagi, frú forseti, að ríkið mun væntanlega verða stofnfjáreigandi í allmörgum sparisjóðum. Því er sýnt að ríkið geti verið með allt að 60–75% markaðshlutdeild á fjármálamarkaði enn um sinn. Því tel ég, frú forseti, og tek undir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér bæði í gær og í umræðunni í morgun að það sé full þörf á þeirri stofnun sem hér er lagt til að verði lögfest, Bankasýslunni. Auðvitað verður umfang þessarar stofnunar eitthvað minna en til var ætlast í upphafi og flestir fagna því. En það er út af fyrir sig ekki ástæða til þess, minna umfang er út af fyrir sig ekki ástæða til þess að vanda sig ekki eins og kostur er og halda áfram að fylgja þeim leiðbeiningum og tillögum um uppbyggingu nýrra banka með aðkomu ríkisins sem kallað var eftir, m.a. frá Mats Josefsson, sænska bankasérfræðingnum.

Ég vil að lokum, frú forseti, fagna þeim umræðum sem hér urðu í morgun um drög að eigendastefnu. Á fundi viðskiptanefndar í gær var eigendastefnan kynnt og við fengum kynningu á henni frá fjármálaráðuneytinu eins og hér hefur komið fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Ég vænti þess að við getum þegar þing kemur saman strax eftir verslunarmannahelgi sest yfir drög að eigendastefnu í viðskiptanefnd og tekið mið af þeim umræðum sem hér fóru fram í morgun og leitað eftir ábendingum frá fleirum til þess að skoða hana frekar og leggja okkar lóð á þær vogarskálar. Ég fagna þessari eigendastefnu sérstaklega, það er margt í henni sem ég sé ástæðu til þess í raun að fagna sérstaklega, frú forseti. Það eru kannski ekki efni til þess að fara í þetta því að þetta er búið að vera hér á dagskrá í morgun, en ég gæti talið hér upp nokkuð mörg atriði sem mér hugnast sérstaklega vel.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarp um Bankasýslu verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér rakið og auk þess breytingartillögu frá mér.

Undir nefndarálitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Magnús Orri Schram, Lilja Mósesdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.