137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

stuðningur vegna fráveituframkvæmda.

144. mál
[19:01]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, fela í sér heimild til að styrkja tilteknar fráveituframkvæmdir á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2008 um allt að 20% af staðfestum raunkostnaði styrkhæfra framkvæmda, eins og segir í lögunum. Samkvæmt 4. gr. laganna getur fjárhagslegur stuðningur ríkisins vegna framkvæmda sveitarfélaga við fráveitur numið allt að 200 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af staðfestum heildarraunkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs. Þannig hefur fráveitusjóður einungis haft til ráðstöfunar það fé sem veitt hefur verið á fjárlögum á hverju ári.

Ekki hafa verið greiddir út styrkir samanber lögin um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum vegna framkvæmda á árinu 2008 þar sem mjög takmarkað fjármagn er til ráðstöfunar til verkefnisins. Styrkir til sveitarfélaga vegna framkvæmda í fráveitumálum eru greiddir út ári eftir að framkvæmdir eiga sér stað. Lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum voru upphaflega sett árið 1995 og fyrst úthlutað þess vegna árið 1996. Upphaflega giltu lögin, eins og fyrirspyrjandi spyr hér um, bara til loka árs 2005 en með viðbótarlögum og samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga voru lögin framlengd með óbreyttri hámarksfjárhæð á hverju ári. Því var gert ráð fyrir að hægt yrði að styrkja framkvæmdir sveitarfélaga allt til loka ársins 2008.

Þau sveitarfélög sem hafa sótt um styrki vegna fráveituframkvæmda og uppfyllt skilyrði laganna hafa fengið greiddan styrk í samræmi við lögin fyrir framkvæmdir á þessu tímabili, þ.e. frá 1995 til 2007. Vegna fjárhagsstöðu sjóðsins, sem m.a. kemur til vegna mikilla framkvæmda sveitarfélaganna á árunum 2006 til 2007, hefur þó ekki reynst mögulegt að nýta heimildarákvæði laganna um fráveitustyrki vegna framkvæmda á árinu 2008. Af þessum sökum var þeim sveitarfélögum sem sóttu um styrk til framkvæmda fyrir árið 2008 tilkynnt í apríl sl. að engir fjármunir væru til ráðstöfunar til að styrkja framkvæmdir sem unnar voru á því ári. Þetta var gert í framhaldi af því að fráveitunefnd, sem starfar samkvæmt lögunum og í eiga sæti fulltrúar ríkis og sveitarfélaga, sendi ráðuneytinu bréf í byrjun þessa árs þar sem gerð er grein fyrir yfirferð nefndarinnar á fráveitusjóði og stöðu hans 30. desember sl. Í bréfinu er staðan rakin og þegar búið var að greiða 10% af framkvæmdakostnaði vegna fráveitumála árið 2007 voru með fjárheimildum ársins 2009 til ráðstöfunar út gildistíma laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum tæpar 100 millj. kr. Því gerði fráveitunefnd tillögu um að þessar fjárhæðir væru notaðar til að styrkja framkvæmdir ársins 2007 að fullu.

Ráðuneytið samþykkti þá tillögu nefndarinnar að þeir fjármunir sem væru til ráðstöfunar árið 2009 til að styrkja fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, samanber áðurnefnd lög, yrðu notaðir til að styrkja fráveituframkvæmdir sveitarfélaganna á árinu 2007. Þannig gætu styrkir vegna fráveituframkvæmda sveitarfélaga ársins 2007 numið allt að 20%.

Við lokauppgjör á framkvæmdum vegna ársins 2007 hefur nú komið í ljós að einhverjir fjármunir munu geta styrkt framkvæmdir vegna ársins 2008 og verið er að skoða það í ráðuneytinu. Í framhaldi af því verður farið yfir umsóknir vegna framkvæmda ársins 2008 og styrkir greiddir til sveitarfélaga sem uppfylla skilyrði laganna í samræmi við tillögur fráveitunefndar frá því í byrjun júní sl. Þó er ljóst að styrkirnir verða hlutfallslega mun lægri en undanfarin ár. Lögin eru, eins og fyrirspyrjandi gat um, ekki lengur í gildi og því er ekki gert ráð fyrir frekari stuðningi við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga samkvæmt þeim lögum.

Ég vil að lokum geta þess sérstaklega, vegna þess að fyrirspyrjandi talaði um lögbundinn eða lögboðinn stuðning, að í lögunum er um að ræða heimildarákvæði til þess að greiða allt að tilteknu hlutfalli en ekki það hlutfall óskert.

Varðandi framhaldið og framtíðarsýn er ljóst að umræðan um frekari aðkomu ríkisins að fráveituframkvæmdum er hluti af snúnum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég hef miklu meiri reynslu af því að vera sveitarfélagamegin í þeim málum en ráðherramegin og sem fyrrverandi varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þekki ég þessa togstreitu raunar afar vel. Annars vegar í ljósi þess að fráveituframkvæmdir eru stórkostlegt heilbrigðismál og mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin, m.a. með tilliti til atvinnuuppbyggingar og umhverfis- og ferðaþjónustu sveitarfélaganna. Hins vegar, eins og fyrirspyrjandi vék raunar að í sínu máli, þeirrar þröngu stöðu sem ríkissjóður er í. Ég lít svo á að þessi umræða hljóti að vera hluti af samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga sem eru vonandi í farsælum og góðum farvegi núna og ég mun fyrir mína parta beita mér fyrir því að þessi umræða verði farsæl á þeim vettvangi.