137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:33]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Eins og stundum áður er íslensku þjóðinni vandi á höndum. Þessi litla þjóð, yngsta þjóð Evrópu, hefur lifað af margvíslega erfiðleika sem að henni hafa steðjað og sagan greinir frá síðustu 1100 ár. Við höfum marga skrokkskjóðuna hlotið og mátt þola harðindi, eldgos, aflabrest og tröllauknar náttúruhamfarir á þessu landi þar sem sumardagar eru ekki einasta sætari og lengri en aðrar þjóðir þekkja heldur er skammdegismyrkrið og vetrarnóttin einnig lengri og svartari en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli.

Eins og aðrar þjóðir höfum við einnig orðið að þola margvísleg sjálfskaparvíti sem ófullkomleiki mannsins, eða andlegur atgervisbrestur eins og það mundi heita á útþynntu fjölmiðlasproki samtímans, virðist stöðugt kalla yfir sig og sumir telja að sé refsing æðri máttarvalda í garð tegundar sem fyllst hefur hroka, „hubris“, og týnt auðmýkt sinni frammi fyrir lífinu sjálfu og umhverfi þess. Við höfum vegna eigin vanmáttar, hroka og skeytingarleysis um hag annarra og þar með heildarinnar gengið í gegnum borgarastyrjöld Sturlungaaldar og glatað sjálfstæði okkar og forræði yfir lífi okkar litlu þjóðar. Við höfum mátt þola um langar aldir tilveru sem afskekkt og einskis metin nýlenda, við þekkjum sult og seyru, fátækt og skort.

Með tilliti til þess að menn hafa það fyrir satt að það gildi jafnt um þjóðir sem einstaklinga að sú lífsreynsla sem ekki bugar mann eða drepur geri mann sterkari má furðu sæta að þessi lífsreynda smáþjóð skuli nú enn eina ferðina standa nánast ráðalaus gagnvart stórkostlegum vandræðum. Þessi vandræði stafa annars vegar af siðblindu og græðgi gjörspilltra óráðsíumanna og hins vegar af heimsku og skammsýni þeirra innlendu stjórnmálaafla sem telja að tilgangur og inntak lífsins og mannlegs eðlis sé að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Á Alþingi er það nú verkefni okkar að leita lausnar á svonefndu Icesave-máli sem snýst um hvort eða með hvaða hætti þjóðin eigi að bera sameiginlega ábyrgð á ábyrgðarlausri framgöngu einstaklinga og einkafyrirtækis, þess Landsbanka sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur afhentu sérvöldum einkavini sínum sem áður hafði verið dæmdur og afplánað fangelsisvist fyrir efnahagsbrot.

Saga þessa máls er samfellt registur yfir rangar ákvarðanir, pólitískt getuleysi, fljótfærni og afglöp á afglöp ofan. Þar að auki snýst málið um barnalega oftrú á getu Íslendinga til að setja saman samninganefnd sem gæti vafið um fingur sér harðsnúnum samningamönnum Hollendinga og Breta á heimavelli og á tungumáli hinna síðarnefndu sem höfðu óátaldir af alþjóðasamfélaginu og íslenskum stjórnvöldum komist upp með að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum.

Sá samningur sem nú er lagt fyrir Alþingi að ábekja og ábyrgjast er skilgetið afkvæmi ofríkis og þjösnaháttar Hollendinga og Breta í garð smáþjóðar sem hingað til hefur skort gæfu, atgervi og forustu til að bera hönd fyrir höfuð sér. Í stað þess að benda á að Bretar hafi fyrirgert bæði lagalegum og siðferðislegum rétti sínum í Icesave-málinu með beitingu hryðjuverkalaga var gengið til samninga við þetta hruma en siðlausa nýlenduveldi um hvernig íslenska þjóðin ætti að axla ábyrgð og greiða skaðabætur fyrir óráðsíu og fjárplógsstarfsemi íslenskra dólgakapítalista sem Bretar flokkuðu umsvifalaust undir hryðjuverkastarfsemi.

Hinum íslensku kapítalistadólgum til afbötunar skal því til haga haldið að mér vitanlega hefur strandhögg þeirra á Bretlandi og í Hollandi ekki kostað mannslíf enn þá, eins og hryðjuverk gera venjulega, heldur aðeins valdið þeim aðilum fjárhagslegum búsifjum sem töldu sig hugsanlega geta grætt á því peninga að taka upp viðskipti við hina íslensku æruleysingja. Icesave-málið er samfelld sorgarsaga af heimsku og græðgi, vanhæfi, getuleysi, fljótfærni og spillingu. Í þessu máli fær ljós skynsemi og sanngirni hvergi að skína fyrr en loksins núna á sumarþingi þegar þessi dæmalausi samningur var tekinn til umfjöllunar í nefndum Alþingis, fyrst og fremst fjárlaganefnd. Ég ber virðingu fyrir þeirri vinnu sem þar hefur verið innt af hendi.

Því miður er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Fjárlaganefnd, hversu ágæt sem vinna hennar og vilji hefur verið, er þess ekki umkomin að bjarga barninu upp úr botnlausum Icesave-brunninum. Ef við Íslendingar ætlum okkur að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð getum við ekki látið í minni pokann fyrir svívirðilegum yfirgangi stærri þjóða. Við getum ekki látið undan kúgunartilraunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem telur það vera heilaga skyldu sína að setja sig ofar fullveldi Íslendinga. Við getum ekki látið neyða þessum skelfilega samningi upp á okkur.

Fyrir alla muni skulum við gera það heyrinkunnugt að við séum reiðubúin að framselja Landsbankaskrílinn í hendur breskra og hollenskra yfirvalda og heita Bretum og Hollendingum allri mögulegri aðstoð við að hafa upp á hverri krónu í eigu þessa lýðs til greiðslu á Icesave-innstæðum. Ef við ætlum að setja framtíðarsjálfstæði okkar ofar tímabundnum deilum um peninga verðum við að sýna þann manndóm að lýsa hátt og snjallt yfir vilja okkar til að leysa Icesave-málið með sanngjörnum og raunhæfum hætti eins og tíðkast með frjálsum þjóðum og höfða til alþjóðasamfélagsins að skilja málstað smáþjóðar sem nú er verið að kúga og svínbeygja með nauðungarsamningi, hryðjuverkalögum og miskunnarlausu kverkataki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Frá þessu máli verða Íslendingar að ganga uppréttir. Líf á fjórum fótum frammi fyrir erlendu valdi er hundalíf.