137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi vilja spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þriggja spurninga, ágætt að hann byrji að punkta hjá sér: Er ljóst núna hvort er rétthærra fyrir breskum dómstólum samningurinn eða fyrirvararnir? Leikur einhver vafi á því enn þá að mati hv. þingmanns hvort íslenska ríkið eigi að ábyrgjast Icesave og er einhver vafi á því hversu háar fjárhæðir íslenska ríkið á að greiða?

Ég hefði þá í framhaldi af því líka mikinn áhuga á að heyra, af því að það var formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem talaði fyrstur í ræðu sinni um mikilvægi þess að tillit yrði tekið til skuldajöfnunar. Nú er ég búin að renna í gegnum þær breytingartillögur sem liggja frammi og undirritaðar eru af m.a. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd. Þar sé ég ekki orð um eitthvað sem varðar skuldajöfnun.

Það er hins vegar í breytingartillögum sem við framsóknarmenn leggjum fram hér, með leyfi forseta:

„Ef í ljós kemur að skaði hafi hlotist af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda fyrir þrotabú Landsbanka Íslands hf. á íslenska ríkið að njóta þess þegar kemur til útgreiðslu úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf.“

Hvernig stendur á því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hunsuðu algjörlega ábendingar formannsins varðandi skuldajöfnun? Og þá í framhaldinu, er í huga þessara þingmanna kannski enginn vafi á því hversu háar fjárhæðir við eigum að borga?