138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Góðir Íslendingar. Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti, sem leiddi þjóð sína djarflega út úr kreppunni miklu, sagði þegar hann tók við sem forseti 1933: Það eina sem við þurfum að óttast er óttinn sjálfur. Í mestu erfiðleikum lífs okkar megum við aldrei glata gleðinni eða bjartsýninni.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 gefur fá tilefni til bjartsýni og gleði. Við vissum að þetta yrði engin skemmtilesning en það er verra en nokkur gat átt von á. Verst er þó það hugarfar sem skín í gegn. Þessi ríkisstjórn trúir því nefnilega að höft og skattar, ríkisvæðing og miðstýring séu lausnin á öllum okkar vandamálum og við fáum að heyra það reglulega hversu erfitt þetta verkefni er, að þau vinni daga og nætur í Stjórnarráðinu. Já, það er örugglega mikið að gera í öllum ráðuneytum en það er ekkert nýtt. Starf ráðherra er nefnilega ekki þægileg innivinna og á ekkert að vera það. Þetta er starf til að taka á hlutunum, ráðast í verkefni þegar tækifærin bjóðast og skapa tækifærin þegar annað dugir ekki. Ég væri síðust manna til að segja að ríkisstjórnin ynni létt verk. Sannarlega stendur hún frammi fyrir mikilli áskorun eftir það mikla efnahagshrun sem varð hér fyrir ári síðan.

Hrunið er á ábyrgð margra, fyrri ríkisstjórna þar sem Framsóknarflokkur og Samfylking léku stórt hlutverk með okkur sjálfstæðismönnum. Hrunið er jafnframt á ábyrgð eftirlitsaðila og Seðlabanka, fjölmiðla sem hefðu mátt sýna meira aðhald, alþjóðavæðingar sem klikkaði algjörlega á regluverkinu og síðast en ekki síst er það á ábyrgð fjármálafyrirtækja og annarra stórfyrirtækja þar sem ríkti gegndarlaus óráðsía, óraunsæi og agaleysi. Þetta sjáum við öll nú þegar síðustu ár eru gerð upp. Við deilum ekki lengur um þetta.

En þegar aldan skellur á bátnum eigum við að gefa allt í til að komast aftur upp úr brimrótinu. Nú ári eftir hrun erum við enn í öldudalnum. Við gerum hver mistökin á fætur öðrum, ströndum á öllum þeim skerjum sem á siglingu okkar verða og stærstu mistökin eru í boði þessarar vinstri stjórnar sem nú er við völd.

Allar ríkisstjórnir gera mistök. Allar ríkisstjórnir byggja á ákveðnum málamiðlunum, þetta þekkjum við. Allar ríkisstjórnir standa við sum af þeim loforðum sem gefin eru en önnur ekki. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar svikið fleiri loforð en flestar aðrar á skemmri tíma en þekkist í sögunni. Þessi vinnubrögð birtast í stórum sem smáum málum.

Það átti til að mynda að passa upp á skapandi greinar. Raunveruleikinn er sá að skrúfað er fyrir þann mikla kraft sem einkennt hefur íslenska kvikmyndagerð og framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni undanfarin ár. Annað dæmi er niðurskurður í sjóðum til námsefnisgerðar, sem var komið á til að ýta undir fjölbreytni, samkeppni og nýsköpun í íslensku námsefni. Nei, nei, ríkisstofnunin er látin óhreyfð og óhögguð og nýr menntamálaráðherra virðist róa að því öllum árum að námsgagnaútgáfa grunnskóla verði aftur á einni hendi, hjá einni ríkisútgáfu. Með sama áframhaldi stefnum við hraðbyri í ógeðfellt einnar skoðunar samfélag þar sem normið er vinstri og afbrigði alls ekki leyfð.

Verstu svik ríkisstjórnarinnar eru þó sá undirlægjuháttur gagnvart Bretum og Hollendingum sem einkennir Icesave-viðræðurnar. Þegar þingið hafði veitt ríkisstjórninni tæki, raunverulegt tæki til þess að standa í fæturna lyppast ríkisstjórnin jafnharðan niður.

Virðulegi forseti. Ég sagði hér áðan að ríkisstjórnin hefði svikið loforð og brugðist væntingum, en hún hefur líka staðist væntingar. Við sjálfstæðismenn sögðum fyrir kosningar: Vinstri stjórn hækkar skatta. Vinstri stjórn eykur álögur á fyrirtæki og fjölskyldur. Vinstri stjórn kæfir frumkvæði einstaklinganna. Gamli söngurinn en sígildur. Allt þetta endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu og það er sama hvar borið er niður. Ríkisstjórnin kemur í veg fyrir verðmætasköpun og stöðvar framkvæmdir. Hún kemur í veg fyrir að þetta einkenni íslenskrar þjóðarsálar, vinnusemin, sjálfshjálpin, fái notið sín.

Ótti minn felst ekki einungis í því sem við höfum nú þegar séð í fjárlagafrumvarpinu heldur líka í því sem kann að gerast á ýmsum sviðum. Háskólinn í Reykjavík, líkt og aðrir einkareknir háskólar, hefur hleypt miklum krafti og miklum metnaði inn í menntakerfið og stuðlað að framförum allra háskólanna. Vinstri menn hafa frá upphafi verið á móti skólanum og hann hefur verið þeim þyrnir í augum. Eftir að hafa upplifað verk þeirra á öðrum sviðum er farinn að læðast að mér ótti, sá ótti að ríkisstjórnin ætli Íslendingum að hafa einn háskóla, enga samkeppni og enga fjölbreytni. Flettið upp í þingræðum — einn ríkisrekinn háskóla. Því er ég á móti.

Góðir Íslendingar. Máltækið segir að sterkasta stálið komi úr heitasta eldinum. Sannarlega höfum við farið í gegnum erfiða tíma en í staðinn fyrir að gefast upp fyrir vandanum eigum við að koma sterkari út úr þeim erfiðleikum.

Við Sjálfstæðismenn segjum að nú sé tími framkvæmda, tími baráttu. Við viljum sækja fram en ekki hörfa. Við viljum axla okkar ábyrgð og höfum sett saman raunsæjar og uppbyggilegar hugmyndir um endurreisn efnahagslífsins.

Við megum aldrei leggja árar í bát. Við megum aldrei vanrækja frumkvæði og kraftinn sem býr í menningu okkar. Við megum aldrei kæfa íslenska þjóðarsál, vinnu- og eljusemina með ofursköttum, einangrunarhyggju og höftum.

Ég vil því skora á ríkisstjórnina að brjóta af sér þá hugarfarshlekki sem einkenna hennar verk og gjörðir og koma sér að verki.