138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þingmenn hafa mismunandi stjórnmálaskoðanir og verða seint sammála um alla hluti, það höfum við séð hér í kvöld. Ég verð aldrei sammála stjórnarflokkunum um það að við getum skattlagt okkur út úr þessari kreppu, sama hvaða nafn þessir skattar þeirra hafa allir saman.

Hinir vanhugsuðu orku- og auðlindaskattar sem boðaðir eru í fjárlagafrumvarpinu, „fantasíumatseðill“ hæstv. iðnaðarráðherra, eru t.d. stórskaðlegir íslensku atvinnulífi. En þrátt fyrir að við verðum aldrei sammála um allt er ég á þeirri skoðun að verkefnin sem við stöndum frammi fyrir núna séu þess eðlis að við þurfum að vinna saman að þeim. Við þurfum að horfast í augu við að þjóðin kallar á samvinnu, launþegar og atvinnurekendur hafa sama markmið. Við viljum öll komast hratt út úr þessari kreppu.

Ríkisstjórnin skrifaði undir stöðugleikasáttmála sem hefði átt að undirstrika þetta. Raunin er hins vegar sú að hún vinnur sjálf gegn stöðugleikasáttmálanum og allir tala í kross við ríkisstjórnarborðið. En jafnvel þó að ríkisstjórnin geti illa komið sér saman er það skylda okkar þingmanna að vinna betur saman. Við eigum nú þegar að axla ábyrgð og mynda með okkur þingsátt, þingsátt sem felst í því að við einbeitum okkur að uppbyggingu þess sem er í ólagi en látum það sem er í lagi í friði. Í þeim anda vil ég að við hættum strax að eyða kröftunum í það að rífast um fyrningarleið í sjávarútvegi. Við eigum að skapa þingsátt um að hlúa að þessari dýrmætu atvinnugrein þar sem mikilvæg störf eru í húfi úti um allt land.

Ég hitti saltfisksframleiðanda í Þorlákshöfn um daginn og hann orðaði þetta mjög skýrt. Hann sagði: Fyrningarleiðin verður aldrei farin í sátt við greinina. Stefnuyfirlýsingin ein og sér hefur valdið ómældum skaða vegna þess að menn halda að sér höndum í fjárfestingum, í viðhaldi og rannsóknum. Endurskoðun á kerfinu með þessari fyrir fram gefnu niðurstöðu verður aldrei farsæl. — Hlustum á hann og hendum þessari niðurrifstillögu út í hafsauga. Einbeitum okkur að því sem er í ólagi.

Lítum á annað dæmi, Helguvík. Af hverju er núna verið að stofna til átaka um það sem ráðherra kallar formsatriði? Þessi formsatriði tefja þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar við álver í Helguvík og geta skapað hundruð starfa. Á Suðurnesjum eru nú 1.675 einstaklingar án atvinnu, 1.675 manns sem vilja fá vinnu en það er enga vinnu að hafa. 1.675 einstaklingar sem eygja þá von helsta að hér á Alþingi tökum við ákvarðanir sem færa þeim tækifæri. Hvergi á landinu er hærra hlutfall atvinnuleysis og það fer vaxandi.

Skilaboðin til okkar frá góðri vinkonu minni í Reykjanesbæ eru ekkert flókin. Hún segir: Við viljum fá að vera í friði með atvinnusköpunina okkar hvort sem það heitir álver, gagnaver, kísilver eða heilsutengd ferðaþjónusta. Hættið þið á þinginu að þvælast fyrir því sem við erum að reyna að vinna að hér og byggja upp. Látið okkur í friði og við skulum sjá um okkur sjálf.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að hlusta á þessi skilaboð og afturkalla þennan úrskurð sem slekkur vonarneista í augum þeirra 1.675 einstaklinga sem vilja ný tækifæri til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Sams konar skilaboð fæ ég reyndar að heyra víðar í kjördæminu.

Við þingmenn eigum ekki einungis að gera með okkur sátt um sjávarútveginn og nýtingu orkunnar okkar heldur eigum við einnig að gera með okkur þingsátt um að erlend fjárfesting sé velkomin hingað. Af hverju ættu erlend fyrirtæki að vilja fjárfesta hérna þar sem þau sjá að þau eru ekki velkomin? Það dugar ekki að hæstv. utanríkisráðherra messi í útlöndum um yfirburði okkar í nýtingu orkuauðlindanna, hann þarf að hefja þá predikun við ríkisstjórnarborðið.

Skortur á samhæfingu í ríkisstjórn, skortur á skýrum skilaboðum frá ríkisstjórn standa í vegi fyrir fjármögnunarmöguleikum íslensku orkufyrirtækjanna á erlendum lánamörkuðum. Vandinn er að miklu leyti heimatilbúinn en við þingmenn eigum að gefa skýr skilaboð um að við styðjum íslensk orkufyrirtæki til frekari athafna. Við þurfum þingsátt um raunverulegar aðgerðir. Látum ekki blekkjast af innantómri þraspólitík. Átti t.d. ekki allt að lagast um leið og Davíð færi úr Seðlabankanum? Áttu stýrivextirnir ekki að hríðlækka bara um leið og hann gengi út? Átti ekki að vera nóg að senda umsóknina til Evrópusambandsins? Samdægurs átti tiltrú umheimsins á Íslandi að snaraukast og allar lánalínur veraldarinnar að opnast.

Og nú á allt að lagast ef við bara klárum Icesave. Ef við bara klárum Icesave verður allt gott. Það var allt að því átakanlegt að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra hérna áðan. Þetta er aumt yfirklór ráðþrota ríkisstjórnar sem því miður nær ekki saman um neitt.

Virðulegi forseti. Við megum engan tíma því að þá missir fólkið okkar vonina og fer úr landi. Ég endurtek: Gerum með okkur þingsátt um uppbyggingu í stað niðurrifs. Lofum þjóðinni því að við stöndum undir væntingum og hugsum um hag hverrar einustu fjölskyldu sem nú fer í gegnum erfiða tíma. Það er okkar skylda og, góðir landsmenn, það er okkar hlutverk.