138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri hvað hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins segir, og ég hef lesið það sem haft er eftir honum í blöðunum, að hann telji rétt að fara með þetta mál fyrir dómstólana að því er varðar Icesave. Hann er þá annarrar skoðunar en hann var í desember þegar hann taldi ekki valkost fyrir íslensk stjórnvöld að standa í stífum lögfræðilegum túlkunum eða að halda því til streitu að fara með málið fyrir dómstólana. Nú leggur hv. þingmaður til að málið fari fyrir dómstóla og þess vegna legg ég fyrir hann eftirfarandi spurningar:

Hvað áhrif telur hv. þingmaður að það hafi, t.d. á gjaldeyrisforðann, ef við förum hans leið, förum með málið fyrir dómstóla? Hvert getum við sótt lán til þess að styrkja gjaldeyrisforðann og hvaða áhrif hefur það ef við getum ekki styrkt hann? Ég nefni gjaldeyrishöftin, gengismálin, endurreisn bankakerfisins og tilraunir til að koma atvinnuvegunum í gang. Hv. þingmaður verður að segja okkur hvaða leið hann vill fara ef hann vill vísa málum til dómstólanna. Hvernig á Tryggingarsjóður innstæðueigenda að fara með það stóra lán sem fellur á hann eftir nokkra daga ef leið hv. þingmanns verður farin? Við vitum að það mun taka töluvert langan tíma ef fara á með þetta mál fyrir dómstóla. Þess vegna vil ég endilega fá fram í þessari umræðu hvaða leiðir aðrar hv. þingmaður sér í stöðunni. Við viljum auðvitað hlusta á allar hugmyndir og að þær sem við teljum þess virði séu þá skoðaðar í staðinn fyrir samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sjóðurinn getur farið ef við óskum ekki eftir aðstoð hans lengur en þá verða menn að hafa svör við því hvað á að koma í staðinn.