138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að menn komi hér upp og ræði um hversu svart þetta fjárlagafrumvarp er. Þetta er að mínu viti andstyggðarfjárlagafrumvarp að mörgu leyti.

Í upphafi verð ég þó að segja að við lestur þess hefur það opnast fyrir mér að þetta er frekar hrátt frumvarp og á eftir að vinna mikið í því, það er alveg augljóst. Bæði sér maður að forsendur þess að sumu leyti eru algerlega óræddar innan ríkisstjórnarinnar og innan Alþingis. Vil ég þar sérstaklega nefna svokallaða svæðaskiptingu sem rætt er um í fjárlagafrumvarpinu og margar sameiningar embætta og tilfærsla verkefna byggja á. Þetta er svo sem þekkt hugsun úr ríkiskerfinu að reyna að skipta landinu í einhvers konar svæði þar sem miðstýrt „apparat“ sér um ákveðna hluti.

Þetta er andstyggðarfrumvarp að því leyti að það er á sumum stöðum höggvið býsna nærri ákveðnum greinum og ákveðnum hlutum samfélagsins. Það er höggvið mjög nærri landsbyggðinni að stórum hluta og er reynt að taka til baka og endurskipuleggja verkefni sem jafnvel er búið að berjast fyrir árum og áratugum saman að halda í úti á landi. Sama máli gegnir um opinber störf sem sköpuð hafa verið úti á landi en eru nú samkvæmt frumvarpinu tekin til baka eða hreinlega lögð af, sýnist mér.

Mér finnst vanta nokkuð á það í þessu frumvarpi að fyrir utan mikla skattheimtu og mikinn niðurskurð sem boðuð eru þar séu áætlanir um annars konar tekjuöflun og þá sérstaklega áætlanir um hvernig við byggjum upp atvinnu. Ég fæ ekki séð að það sé hreinlega neitt í þessu ágæta frumvarpi varðandi þá þætti.

Skattahækkanir sem boðaðar eru munu leggjast á fyrirtæki og heimili, það er alveg ljóst. Illa líst mér á boðaðan orkuskatt, hvernig sem hann verður útfærður. Ég hef áhyggjur því að hann muni ekki síst koma niður á þeirri jaðarstarfsemi sem hann mun hafa áhrif á, þ.e. jafnvel litlum iðnfyrirtækjum sem nota töluverða orku og skipta miklu máli í sínu nærsamfélagi, svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil koma aðeins inn á eitt til að sýna fram á að það er eitthvað undarlegt í þessu frumvarpi, þar er sums staðar unnið af fljótfærni. Á bls. 290, undir lið 413 Matvælarannsóknir, er texti sem er algerlega óskiljanlegur og hann hlýtur að vera þar fyrir mistök eða þarf að laga hann. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þennan texta þar sem verið er að tala um matvælarannsóknir:

„Í fyrsta lagi er lagt til að veitt verði 26 millj. kr. framlag vegna leigu á 3.800 m² húsnæði á Vínlandsleið 12 undir starfsemi Matís ohf. og stuðla að fjölgun starfa í byggingariðnaði.“

Svo kemur:

„Gert er ráð fyrir að með þessu muni 200 ný ársverk verða til í byggingariðnaði …“

Ég fæ bara engan botn í þetta. Ég hef rætt þetta við formann fjárlaganefndar, við ræddum hvað þetta þýddi og ég vona að fjármálaráðherra eða ráðuneytismenn geti skýrt þetta. Ef ekki, þarf að fá þýðanda í þetta eins og vinsælt er í dag, að fá menn til að þýða fyrir þingið.

Ég hef líka áhyggjur af þeirri skattheimtu sem ég kom inn á áðan út frá þeim sjónarmiðum að fyrirtæki muni ekki standa undir frekari skattheimtu. Nýlega bárust mér og fleirum þær upplýsingar að hjá ákveðnu — ég held að það hafi verið sýslumannsembætti frekar en skattstjóra, varðandi lögbundin skil skattframtala hjá lögaðilum að helmingur þeirra, 50% af þeim sem áttu að skila, skilaði þeim inn á tiltsettum tíma. Og það er verðugt verkefni fyrir okkur að velta fyrir okkur hvað það þýðir.

Ég hef líka áhyggjur af því að verið sé að ýta fínlega til hliðar mjög brýnum samningum eða brýnni starfsemi sem snúa að þeim sem oft eru sagðir mega sín minna í samfélaginu. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra eða einhvern annan sem getur hugsanlega svarað því hvað það þýðir á bls. 314 að ekki verði endurnýjaðir þeir samningar sem í gangi eru á vernduðum vinnustöðum Öryrkjabandalagsins, Múlalundar og Blindrafélagsins. Það kann að vera að til sé eðlileg skýring á þessu, að það sé einhvers staðar annars staðar í frumvarpinu, en ég finn það ekki. Því vil ég spyrja hvort þetta þýði að þessir samningar séu úti og verði ekki framlengdir.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af landsbyggðinni eins og ég kom að áðan. Margt í þessu frumvarpi vekur upp spurningar, t.d. í samgönguþætti þess. Á bls. 376 er talað um samninga á vegum samgönguráðuneytisins og það vekur óneitanlega athygli, hjá mér í það minnsta, þegar við skoðum rekstur ferja að framlag til rekstrar Hríseyjarferjunnar Sævars er hækkað, það er hækkað framlag til Grímseyjarferjunnar Sæfara, það er örlítil hækkun fyrir Herjólf en síðan er Breiðafjarðarferjan Baldur skorin niður við trog. Það er hreinlega með ólíkindum að þetta skuli gert í ljósi þess að Baldur er líklega eina samgöngutæki hluta íbúa þessa lands stóran hluta ársins vegna þess að vegirnir á suðurhluta Vestfjarða eru ekki einu sinni færir allt sumarið, hvað þá á veturna. Ég krefst þess að gefin verði skýring á þessu því að einfaldast er að álykta sem svo að hæstv. samgönguráðherra hafi þarna beitt sinni alkunnu pólitísku snilld í að deila út fjármunum. Hinar ferjurnar, Sævar og Sæfari, eru vitanlega í kjördæmi samgönguráðherra og hann hefur látið Baldur því sitja eftir.

Ég ætla síðan að nota þann litla tíma sem ég á eftir til að fjalla áfram um landsbyggðina. Það eru dæmi um heilbrigðisstofnun í þessu frumvarpi þar sem þarf að skera niður um 11–12% á milli ára. Það þýðir skerðingu á þjónustu og það þýðir fækkun starfa hjá þessari stofnun sem þó er búin að hagræða mjög á milli ára. Talað er um að það þurfi að sameina sýslumannsembætti til að gera þau sterkari til að takast á við verkefnin. Sýslumannsembættið á Blönduósi sem hefur á sínum tíma sjálfsagt verið lítið sýslumannsembætti en það hefur byggt sig upp með því að taka til sín verkefni þannig að ég mótmæli þeim hugsanagangi sem kemur fram í frumvarpinu.

Ég hef líka áhyggjur af pælingum varðandi héraðsdómara og aðrar stofnanir sem eru á þessu sviði því að með því t.d. að fækka dómurunum með þessum hætti, eins og rætt er um í frumvarpinu eða gefið er í skyn — nota bene, það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir — er verið að velta kostnaðinum sem er á ríkinu í dag yfir á þá sem þurfa að nota þjónustuna. Ef við horfum á t.d. Húnvetninga, ef þeir þurfa að sækja þessa þjónustu til Akureyrar er verið að auka á ferðakostnað þeirra og kostnað heimila þessara íbúa. Það er bara þannig.

Það virðist vera að vaxtarsamningar á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra verði skornir niður, að verið sé að spara þar fjármuni. Það er ágætt að fá skýringar á því ef svo er ekki en ég fæ ekki séð þær í þessu frumvarpi. Byggðamálin eru í algerri óvissu í þessu frumvarpi og styrkir til atvinnumála og atvinnuþróunarfélaga eru verulega skornir niður, að mér sýnist. Þetta frumvarp er því andstyggilegt að mörgu leyti, eins og ég sagði í upphafi míns máls. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því, og það kann vel að vera að nú segi menn að þetta sé bara einhver landsbyggðarhugsun og kjördæmapot, að landsbyggðin sem ekki tók þátt nema að litlu leyti í þeim óskapnaði sem gekk yfir samfélagið virðist í fyrstu atrennu eigi að bera einn stærsta hlutann af þeim niðurskurði og þeim sparnaði sem boðaður er og hagræðingu innan stjórnkerfisins meðan aðalskrifstofurnar í borginni sleppa að mínu viti nokkuð billega.