138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör og heiðarleg en mig langar að halda áfram fyrst ég hef tíma. Mig langar að spyrja út í svokallaðan stóriðjuskatt eða orku- og auðlindagjald. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að þar ætla menn að fara þá leið, ef þeir geta ekki annað út af þessum fjárfestingarsamningum, að leggja þetta beint á þá sem selja raforkuna, þ.e. Landsvirkjun og taka skattinn þannig. Landsvirkjun verður þá að velta því áfram út og það þýðir, eins og við þekkjum báðir, að raforkuverð mun hækka mjög mikið t.d. á landsbyggðinni. Þrátt fyrir 20% hækkun á raforkuverði á þessu ári er einnig gert ráð fyrir skerðingu á niðurgreiðslum til raforku á næsta ári. Þar sem orðið er þrefalt dýrara að kynda húsin úti á landi mun þetta hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir fólk sem þar býr. Finnst hv. þingmanni eðlilegast að gera þetta með þessum hætti? Hefði ekki átt að vanda vinnubrögðin betur við þetta hörmulega fjárlagafrumvarp?