138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlög fyrir árið 2010, kannski ekki rit sem fer á lista yfir vinsælustu rit haustsins 2009 en fjárlögin byggja á mjög ákveðnum forsendum sem kynntar voru snemmsumars. Þau endurspegla einbeittan vilja ríkisstjórnar Íslands til að snúa efnahagsþróun á Íslandi úr mínus í plús örugglega og eins hratt og nokkur kostur er.

Ekki fer á milli mála að ekki er verið að afla vinsælda eða kjörfylgis með þeim aðgerðum sem boðaðar eru í frumvarpinu. Aftur á móti er með aðgerðum sem þar eru boðaðar lagt til að ekki ríki það ástand á Íslandi um langa framtíð að fjórða hver króna sem aflað er verði greidd í skuldavexti. Meginmarkmið fjárlaganna eru skýr. Þau eiga að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum til að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi og framtíðarsvigrúm fyrir öflugt velferðar- og menntakerfi.

Það eru engin vísindi að til að minnka halla og ná að skila hagnaði eru aðeins tvær leiðir, að skera niður kostnaðarliði og að auka tekjur. Það gerir hið opinbera með því að afla sér skatttekna á réttlátan hátt með því að gæta þeirra sem síst mega við aukinni skattbyrði, lagfæra ýmsa annmarka á skattkerfinu, efla skatteftirlit og efla sanngjarnt gjald á nýtingu á auðlindum okkar til að það verði ekki almenningur sem ber alla þá skattbyrði sem nauðsynlegt er að koma á til að ná því langþráða jafnvægi og stöðugleika sem við erum öll að stefna að í íslensku efnahagslífi.

Niðurskurður kostnaðarliða er með ákveðnum áherslum þar sem velferðarkerfið er hlutfallslega minnst skorið niður eða um 5%, menntakerfið um 7% en stjórnsýslustofnanir um 10%. Mér finnst að í þeim hagræðingaraðgerðum sem við erum að vinna að núna felist ákveðin tækifæri til að endurskoða kerfið almennt. Velta þarf við hverjum steini og skoða hvort fjarlægja megi hann eða koma honum fyrir annars staðar. Kerfið er í eðli sínu íhaldssamt og vill viðhalda sér en tækifæri geta falist í því að neyðast til að endurskoða heildarmyndina. Tækifærin má nýta til hagsbóta fyrir alla. Það er nefnilega ekki sjálfskrifað jafnaðarmerki á milli fjárveitinga og gæða. Vonandi erum við öll tilbúin til að horfa á verkefnið Endurreisn Íslands með þessum gleraugum í anda frægrar Pollýönnu.

Auðvitað verðum við eftir sem áður að vera gagnrýnin og skerpa fókusinn. Þannig er ljóst að gæta þarf að störfum, ekki síst á landsbyggðinni þar sem hvert starf er svo stórt hlutfall af heildarmyndinni. Við þurfum að gæta að fyrirtækjum, heimilum, minnihlutahópum og mörgum fleirum. Ég er t.d. hrædd um að mikil skerðing á jöfnunarsjóði til náms, í daglegu tali nefndur dreifbýlisstyrkur, geti skert enn frekar jafnrétti til náms á hinu víðfeðma Íslandi en efast ekki um að í meðförum hv. þingmanna og hv. fjárlaganefndar verði þessi liður endurskoðaður um leið og skoðað verður hvort að ósekju mætti endurskoða reglur og koma í veg fyrir að aðrir njóti þessa styrks en þeir sem sannanlega þurfa á honum að halda.

Íslendingar eru dugandi þjóð. Með seiglu og nýskapandi hugsun og verkum höfum við byggt harðbýlt land og breytt samfélaginu úr hefðbundnu frumframleiðslusamfélagi í vel menntað samfélag sem sífellt leitar nýrra tækifæra sér til hagsbóta og bættra lífskjara. Það er einmitt þessi nýskapandi hugsun Íslendinga sem þarf að styðja við með myndarlegum hætti til að efla atvinnulíf og lífsgæði um allt land. Það er spennandi að fylgjast með samstarfi menntastofnana, fyrirtækja og rannsóknaraðila sem vinna að þróun vörutegunda og verkferla til að skapa ný verkefni og atvinnutækifæri vítt og breitt um landið. Í þessu sambandi má benda á frumvarp til laga sem er í vinnslu í iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti um skattalegar ívilnanir til handa sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum þar sem gert er ráð fyrir möguleikum á frádrætti frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og að heimilt verði að veita afmarkaðar ívilnanir í formi frádráttarheimilda frá skatti eða endurgreiðslu á kostnaði við rannsóknir og þróun á vegum nýsköpunarfyrirtækja. Í þessum geira eru mikil tækifæri sem við þurfum að hlúa að um leið og við hlúum að þeim atvinnuvegum og fyrirtækjum sem fyrir eru í landinu.

Þegar ég fór að starfa í pólitík á sveitarstjórnarstiginu fyrir örfáum árum var góðæri eða a.m.k. í reiknuðum stærðum. Þá var skemmtilegt að fá að koma að nýjum og spennandi verkefnum, hlúa að velferð og menntamálum, leggja fjármagn í verklegar framkvæmdir sem áttu sitt blómaskeið. Já, þá var lífið auðvelt. En fyrir rúmu ári fór að syrta að og ljóst að góðærið var farið veg allrar veraldar. Þá var ekki annað í stöðunni en að skerpa fókusinn, bretta upp ermar og ganga í verkin. Staðan er óbreytt núna. Góðærið er enn fjarri okkur og ermar stjórnmálamanna eru enn uppbrettar eða það ætla ég rétt að vona. En það er ekki nóg að standa bara með uppbrettar ermar. Það verður að vera alveg skýrt hvernig vinnulagið á að vera. Um það gæti verið að menn færi að greina á en ég er ánægð með það vinnulag sem fjármálaráðherra hefur boðað með fjárlögunum. Markmiðin eru skýr eins og ég hef nefnt fyrr í máli mínu; að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum til að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi og framtíðarsvigrúm fyrir öflugt velferðar- og menntakerfi og skýr ákvæði um það að þeim sem lítið hafa handa á milli verði hlíft eins og kostur er. Og vinnulagið er samráð við þá aðila sem málið varðar um leið og við stöndum fast í fæturna og horfum fram á veginn í þeim björgunaraðgerðum sem við stöndum í og megum ekki láta truflast um of í þó að auðvitað verði að endurskoða ramma sem ekki fá staðist og munu beinlínis vega að grunnstoðum samfélagsins.

Ég er þeirrar skoðar að þó að við séum að fara inn í erfiðan vetur eigum við að vera einörð í þeirri vegferð sem við erum að leggja af stað í. Reynum að þrauka og nota tækifærið og breyta og bæta í stundum allt of íhaldssömu opinberu kerfi. Þá gætum við séð fram á við lok kjörtímabilsins að geta bætt í velferðarkerfið, í mennta- og menningarmálin og á fleiri sviðum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að erfiðleikar margra heimila og fyrirtækja eru þungbærir og vona svo sannarlega að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að ráðast í þeim til aðstoðar verði að veruleika sem allra fyrst og að ekki verði látið staðar numið ef frekar þarf að aðhafast. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ár eins og 2007 verður ekki næsta ár og ekki þar næsta og kannski viljum við það aldrei aftur. En til að tryggja lífskjör á Íslandi til framtíðar verðum við að fara í þær sársaukafullu aðgerðir sem boðaðar eru í fjárlögum. Losum okkur við 100 milljarða kr. skuldavaxtabyrði sem allra fyrst og verjum þeim milljörðum til uppbyggilegra verkefna heima.