138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og get tekið undir margt af því sem hún sagði en þó reyndar ekki allt. Hún sagðist vera ánægð með vinnubrögð fjármálaráðherra við frumvarpið sem lagt er fram núna. Þá velti ég fyrir mér hvort þetta séu hin nýju vinnubrögð Samfylkingarinnar, þ.e. að fagráðherrarnir sjálfir viti ekki einu sinni hvað stendur til að gera í viðkomandi ráðuneytum. Eins og við höfum margsinnis séð í fjölmiðlum undanfarið hefur iðnaðarráðherra hafnað algerlega þeim sköttum sem koma fram í frumvarpinu. Menntamálaráðherra hafnar algerlega að skera svona niður Kvikmyndasjóð og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að ekki komi til greina að fara með þessa álagningu út á landsbyggðina. Finnst henni þetta góð vinnubrögð?

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann út í þessa orku-, auðlinda- og umhverfisskatta. Hún kemur úr Norðausturkjördæmi þar sem er mikill sjávarútvegur og sjávarútvegur notar mjög mikið af orku. Það liggur alveg klárt fyrir í frumvarpinu að þessum sköttum verður velt bæði á einstaklingana og fyrirtækin. Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi áhyggjur af því að það geti orðið erfitt fyrir þau fyrirtæki sem starfa þar þegar að standa undir þessum álögum til viðbótar við þá erfiðleika sem flestöll fyrirtæki eru í landinu eru í.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann um yfirlýsingar þingflokksformanns Vinstri grænna sem kom fram í sjónvarpi um daginn og upplýsti að nánast allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu samþykkt að láta skrifa undir Icesave-samninginn án þess að hafa lesið hann. Hvað finnst hv. þingmanni um þau ummæli? Telur hún að þau eigi við rök að styðjast? Eins langar mig að spyrja hvað henni finnst um úrskurð umhverfisráðherra vegna Helguvíkur þar sem hæstv. umhverfisráðherra sat á því í eina þrjá mánuði og er síðan búin að setja allt verkefnið í loft upp með ómældum og ófyrirséðum afleiðingum.