138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og reyndar oftar á samráðsfundum með sveitarfélögunum hafa þessir hlutir verið ræddir. Ég held að það sé út af fyrir sig staðreynd að sum sveitarfélög a.m.k., jafnvel mörg þeirra, hafi gripið fyrr og tímanlegar til aðgerða í sínum rekstri þegar séð var í hvað stefndi á síðari hluta síðasta árs og fyrir áramót. Ég hef tekið undir það og lokið lofsorði á það. Ríkið er kannski í þessum tilvikum heldur svifaseinna og þyngra í vöfum, það er auðvitað með umfangsmeiri og dreifðari rekstur og kannski erfiðara að hafa yfirsýn yfir hann allan á einni hendi en rekstur í afmörkuðu sveitarfélagi.

Það sem ég á líka við í þessum efnum er sú skoðun mín að það hefði þurft að taka fyrr og myndarlegar til hendi strax um síðustu áramót. Það hefði verið æskilegra. Ég ætla ekki að undanskilja sjálfan mig í þeim efnum, ég sá það svo sem ekki endilega fyrir frekar en aðrir hvað í vændum var. Því er þó ekki að leyna að tímanlegri ráðstafanir — því fyrr sem menn takast á við vanda sem í vændum er, því betra. Það var reyndar ekki í mínum höndum þarna þegar menn voru að afgreiða fjárlagafrumvarp í desembermánuði sl. eins og kunnugt er.

Varðandi atvinnumálin get ég tekið undir það eitt í þessum efnum að það er alltaf bagalegt þegar frestir renna út og menn ná ekki að ljúka málum innan tilskilins tíma. Því miður eru ótal dæmi um það þótt þau séu ekki til eftirbreytni. Stundum er vinna við mál og úrvinnsla mála einfaldlega flókin og tímafrek. Það þarf líka að gæta að því að ekki sé tekinn réttur af einum eða neinum í þessum efnum. Mér finnst menn stundum í umræðu um þessi mál, t.d. úrskurð umhverfisráðherra um Suðvesturlínu, tala eins og rétturinn sé bara öðrum megin. Hann sé bara framkvæmdaraðilans en ekki þeirra sem kunna að hafa athugasemdir við málið fyrir hönd umhverfisins. Rétturinn er á báðar hliðar (Forseti hringir.) og það þarf að gæta að honum báðum megin frá.