138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða snýst ekki um aðdáun mína á einum eða neinum, hvorki Evrópusambandinu né öðrum. Þetta er bara ákveðið verk sem er verið að vinna. Ég get sagt það hér að mér líður svo miklu betur að flytja þetta frumvarp nú þar sem banni við innflutning á hráu kjöti er viðhaldið heldur en ræða það frumvarp sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þar áður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks flutti og gert var ráð fyrir nánast óheftum innflutningi á hráu kjöti. Þar var allt galopið í þeim efnum.

Þess vegna tel ég líka mjög mikilvægt að við afgreiðum þetta frumvarp sem hraðast til þess að tryggja réttarstöðu okkar og að hún verði áfram ótvíræð því EES-samningurinn er staðreynd og við reynum að fylgja honum eftir. Honum hafa bæði fylgt kostir og gallar sem ég ætla ekki að fara hér í.

Hitt er alveg hárrétt að ég lagði áherslu á að allur ferill varðandi að fylgja eftir aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri mjög gagnsær. Því sem snertir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti væri fylgt eftir eins og nokkur kostur væri. Ég legg áherslu á að spurningar og svör sem lúta að þeim þáttum sem mitt ráðuneyti ber ábyrgð á verði gagnsæ og allir hafi aðgang að þeim og þess vegna komið með athugasemdir og ábendingar í þeim efnum. Þetta er hluti af lýðræðislegu ferli, óháð því hvort ég hef (Forseti hringir.) skoðun á því hvað á að fara þarna inn og hvað ekki. Vinnan á að vera lýðræðisleg (Forseti hringir.) og opin og ég legg áherslu á það.