138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það hefur verið afskaplega áhugavert að fylgjast með umræðu um þetta frumvarp hingað til og heyra í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Svo vill til að við erum sammála um eitt atriði, það er að við erum ekki mjög hlynnt því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Munurinn á mér og honum er hins vegar sá að ég er ekki í ríkisstjórn sem er á hraðri leið með okkur þangað inn. Hæstv. ráðherra á nokkra samúð skilda fyrir það því hann hefur jú verið ötull baráttumaður fyrir því að þvælast fyrir í þessu umsóknarferli. Ég er viss um að samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn og þeir miklu stuðningsmenn ESB aðildar sem þar er að finna hugsa honum stundum þegjandi þörfina. Ég vil nefnilega leyfa mér að halda því fram að í þessu máli sé hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með djúphugsað plott, ef ég má nota það orð hér, og ætla ég að víkja að því síðar.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið á dagskrá vegna þess að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi, ekki síst fyrir íslenskan sjávarútveg og það er í rauninni grafalvarlegt mál hversu lengi hefur tafist að lögfesta þessa löggjöf. Ég tek undir með þeim sem áttu orðastað við hæstv. ráðherra í andsvörum hér áðan að ég óttast að ráðherrann gangi ekki nógu langt og að við séum að kaupa okkur ákveðinn gálgafrest ef þetta verður að lögum eins og ráðherrann leggur til. Ég hef enga trú á því að innflutningur á ferskum matvælum — að sú undanþága verði veitt okkur Íslendingum á grundvelli þessarar lagagreinar, 13. gr. Ég held að því fyrr sem hæstv. ráðherra sættir sig við það, því betra.

Eitt hefur þó gerst þrátt fyrir öll stóru orðin sem hæstv. ráðherra hafði í þingmannstíð sinni og í stjórnarandstöðu, þ.e. að ráðherrann er búinn að sætta sig við að það er augljóst og verður ekki undan því vikist að innleiða þessa löggjöf hér á landi. Hann ætlar bara að gera það í tveimur skrefum. Hann reynir að tipla í kringum þetta erfiða atriði með því að nota rök eins og að við séum hér á íslenska þinginu. Jú, jú, við erum það en með því að skrifa undir EES-samninginn og sækja um aðild að Evrópusambandinu erum við að taka á okkur ákveðnar skuldbindingar.

Þá ætla ég aðeins að nefna plottið sem ég held að ráðherrann sé með. Ég er sammála ráðherranum um að við höfum ekkert inn í Evrópusambandið að gera. Þá get ég einnig verið sammála honum um að það að þvælast fyrir í þessu máli sé ekki til þess fallið að flýta för okkar þangað inn. Það finnst mér ágætt hjá hæstv. ráðherra. Hins vegar er ég ánægð og sátt við að Íslendingar séu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og þess vegna er ég hrædd við að hæstv. ráðherra þvælist fyrir í þeim samningi. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar, lent hjá Eftirlitsstofnuninni og endað með því að setja þann mjög svo ágæta samning í uppnám. Þar held ég að hæstv. ráðherra þurfi aðeins að íhuga — í upphafi skal endinn skoða eins og máltækið segir — að jú, það er hægt að þvælast fyrir og stríða Evrópusambandinu og Samfylkingunni. Ég er eiginlega viss um að hæstv. ráðherra þykir ekkert leiðinlegt að stríða Samfylkingunni í þessu máli en ég held að hann þurfi þá að gera upp við sig hvort hann sé tilbúinn til þess að setja hagsmuni sjávarútvegarins og hagsmuni okkar Íslendinga sem þjóðar gagnvart EES-samningnum í uppnám með þessu plotti sínu.

Nú kann að vera að hæstv. ráðherra komi upp og andmæli því að þetta sé svo djúpt hugsað og að hann sé ekki í þessu mikla ráðabruggi sem ég geri honum upp. Þá er það bara þannig. Ég held þó að við þurfum að passa upp á þetta vegna þess að um daginn var staddur hér á landi Norðmaður, framkvæmdastjóri EFTA, og ég og nokkrir aðrir þingmenn áttum fund með honum í hádeginu fyrir svona viku síðan. Hann hafði miklar áhyggjur af þessu máli og spurði mikið um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda varðandi þetta frumvarp og þessa löggjöf og hvort við vissum fyrirætlanir stjórnvalda í þessu. Ég leyfði mér að segja mína skoðun umbúðalaust við þennan ágæta framkvæmdastjóra. Ég sagði honum að ég byggist við því að hæstv. ráðherra kæmi aftur með þetta frumvarp sem hann hefði lagt fram áður og það væri ekki ætlan ráðherrans að standa við skuldbindingar okkar í þessum efnum, alla vega ekki þetta kastið. Nú kann að vera að þetta sé gálgafrestur, að við verðum svo send til baka og á endanum munum við uppfylla þetta, hvort sem ráðherrann verður enn þá ráðherra í ríkisstjórn eða einhverjum öðrum falið að gera þetta. Þetta held ég að sé hættan.

Ég veit að talsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa áhyggjur af því að þetta dragist og það geti valdið þeim vandræðum. Það má ekki gleyma því að við Íslendingar erum ekki einir aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu heldur eru Norðmenn þar líka. Þeir hafa að sjálfsögðu áhyggjur af því að á meðan við innleiðum ekki þessa tilskipun er þeirra sjávarútvegur, viðskiptahagsmunir og landbúnaður líka í uppnámi. Ef það er þannig, eins og hæstv. ráðherra heldur fram, að hægt sé að fá undanþágu frá innflutningi á ferskum matvælum, af hverju skyldu Norðmenn þá hafa gengið alla leið og aflétt banninu við innflutning á lifandi dýrum? Þeir eru í þeirri stöðu núna og líða fyrir að við erum ekki búin að klára málið. Þeir hafa ekki getað notið góðs af öllum þeim jákvæðu hagsmunum sem innleiðing þessa frumvarps þar og inn í EES-samninginn mundi hafa í för með sér, þannig að þetta droll hér skaðar ekki bara íslenska hagsmuni.

Vegna þess hvaða áhrif þetta mál hefur á utanríkishagsmuni okkar Íslendinga saknaði ég þess þegar ég leit yfir umsagnarlista sem liggur á netinu varðandi þetta mál síðan í sumar að þar var hvergi að finna umsagnir frá utanríkisráðuneytinu, sendiráði okkar í Brussel eða sérfræðingum í EES-samningnum. Ég vil því hvetja hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd — formaðurinn var hérna áðan en ég sé að í salnum eru nefndarmenn úr þeirri ágætu nefnd — til að óska eftir umsögnum frá þessum aðilum. Þrátt fyrir að ég hafi mikla trú á því að hæstv. ráðherra sé búinn að kynna sér þessi mál í þaula vildi ég gjarnan fá umsagnir frá aðilum sem hafa sérhæft sig í þessum málaflokki og eru búnir að fara í gegnum þessa löggjöf. Í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og undir forustu þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, var þessu aflétt. Það var m.a. á grundvelli ítarlegrar greinargerðar frá manni að nafni Peter Dyrberg sem er fróður um þessi mál sem sú ríkisstjórn ákvað að ganga alla leið í þessu máli.

Virðulegur forseti. Ég held að ráðherranum sé mikil vorkunn eins og hér hefur komið fram. Það er eiginlega hálfkostulegt og grátbroslegt að hann skuli vera í þeirri aðstöðu að vera í ráðherrastól einmitt þegar innleiða þarf matvælatilskipun Evrópusambandsins. Eftir öll stóru orðin sem hér hafa fallið er honum nokkur vorkunn. Ég held að ef hæstv. ráðherra ætlar sér að berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu ætti hann að gera það með ráðum og dáð en ekki þannig að það skaði hagsmuni íslenskra fyrirtækja, hvort sem er í sjávarútvegi eða landbúnaði, og hagsmuni okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu og samningnum þar um. Ég tel að það gæti endað illa. Við þurfum að standa vörð um og það er okkar sameiginlega baráttuefni að styrkja frekar en veikja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér í baráttunni gegn Evrópusambandinu með öðrum hætti en að veikja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.