138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

gengistryggð bílalán.

37. mál
[15:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur borist fyrirspurn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og ég þakka hana.

Því er til að svara að í sumar tók til starfa nefnd sem skipuð var að frumkvæði ráðherranefndar félags- og tryggingamálaráðherra og þeirra sem báru þá titlana dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra. Var ætlun nefndarinnar að endurmeta aðgerðir stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum. Ráðherrarnir kynntu, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, í lok síðasta mánaðar almennar aðgerðir sem munu að mínu mati bæta verulega fjárhagsstöðu allra skuldara, hvort sem þeir eru með húsnæðis- eða bílalán. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um húsnæðislánin, það hefur nú þegar verið gert opinberlega, en horfa þess í stað í tilefni fyrirspurnarinnar sérstaklega á þær aðgerðir sem kynntar hafa verið vegna bílalána.

Hvað bílalánin áhrærir hefur annars vegar verið kynnt almenn aðgerð sem byggir á væntanlegu samkomulagi við aðila á bílalánamarkaði um að þeir bjóði lántökum greiðslujöfnun bílalána með þaki á lengingu lánstíma. Með greiðslujöfnun verður greiðslubyrði af gengistryggðum eða erlendum bílalánum og bílasamningum færð í sama horf og hún var í maí 2008, áður en krónan gaf verulega eftir. Jafnframt mun mánaðarleg afborgun fylgja breytingu á launavísitölu, atvinnustigi og gengi með sama hætti og gert verður með íbúðalán. Í því tilfelli verður sett hámark til hækkunar eða lækkunar frá upprunalegu gildi sem er 10% í hvora átt. Eins og ég sagði er ætlunin að byggja á samkomulagi og ekki er ljóst að það þurfi neinar lagabreytingar til vegna þessa. Hins vegar liggur fyrir að það mun þurfa lagabreytingar vegna ýmissa annarra aðgerða sem kynntar hafa verið vegna skuldsettra heimila. Ég veit ekki betur en félagsmálaráðherra muni von bráðar kynna þau frumvörp.

Bæði lántökum og samningshöfum með gengistryggð, erlend eða verðtryggð lán eða bílasamninga mun standa þetta úrræði til boða. Mismunurinn sem verður á reglulegum greiðslum eftir greiðslujöfnun og því sem þær hefðu verið að óbreyttum samningi færist til hækkunar á höfuðstóli skuldarinnar. Gjalddögum fjölgar vegna þessa, nema ef laun hækka hraðar eða gengi krónunnar styrkist hraðar en menn eiga von á. Greiðslutíminn verður þó aldrei lengri en þrjú ár umfram það sem miðað er við í núgildandi samningi. Þannig er sett þak á lenginguna og áhættunni af því að eitthvað standi út af er þá skipt á milli lánveitanda og lántaka, þó ekki alveg á sama hátt og gert verður með íbúðalánin þar sem áhættan verður öll skilin eftir hjá lánveitanda.

Ef eftirstöðvar verða af samningi þegar þessi þriggja ára tími er liðinn getur lántakandi eða samningshafi farið fram á samningsslit með því að greiða eftirstöðvar að fullu og halda þá viðkomandi bifreið skuldlausri eða skilað bifreiðinni samkvæmt ákvæðum samnings til lánveitanda eða leigusala án frekari kvaða. Það er vitaskuld veruleg réttarbót til samanburðar við að geta lent í því að þurfa að skila bifreið en sitja engu að síður uppi með umtalsverðar skuldir eins og dæmi eru um að þeir sem hafa tekið bílalán og lent í vandræðum með á undanförnum árum hafi orðið fyrir.

Þess má geta að samningar sem stofnað var til eða hafa verið yfirteknir eftir 1. október sl. falla ekki undir þessa skilmála, enda má segja að þeir samningar hafi verið gerðir eftir að forsendur breyttust.

Þá hefur fyrrnefnd ráðherranefnd beitt sér fyrir því að styrkja eða bæta sértæk úrræði fyrir skuldara. Þessar aðgerðir eru ætlaðar einstaklingum sem eiga í það miklum greiðsluvanda að lækkuð skuldabyrði eða önnur greiðsluerfiðleikaúrræði nægja ekki vegna þess að fjárhagsstaða er afar slæm og ólíklegt að almenn úrræði dugi til lengri tíma litið. Þetta eru sem sagt sértæk úrræði til viðbótar við þau sem voru þegar komin, þ.e. svokölluð greiðsluaðlögun. Þeim er þá ætlað að auðvelda þeim sem eru í þessari stöðu að semja við lánastofnanir sem jafnvel geta verið margar í hverju tilfelli, um hvernig leyst er úr málum viðkomandi lántaka.