138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

eiginfjárframlag ríkisins í Landsbankanum.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er leitt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki enn hafa haft fyrir því að kynna sér hvað fram fór í Noregi en hún fær upplýsingar um það á eftir, enda sáum við á hvaða stigi þekking hæstv. forsætisráðherra var á því máli í snubbóttum tölvupósti sem hún sendi kollega sínum úti.

Það er merkilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki þekkja þetta fyrirkomulag á greiðslum til gamla Landsbankans vegna þess að ráðherrann ásamt fleiri ráðherrum hafa farið mikinn í fjölmiðlum og lýst því hversu ánægjulegt það sé að innheimtur verði nú miklu meiri en ráð var gert fyrir. Hér er um að ræða spurningu og óvissu upp á hundruð milljarða kr. og hæstv. forsætisráðherra hefur ekki haft fyrir því að kynna sér þá óvissu en er engu að síður reiðubúin að birtast um allt í fjölmiðlum og halda því fram að endurheimtur verði miklu meiri en búist var við.