138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það skiptir miklu máli almennt upp á að við hugum að því að reyna að róa í sömu áttina, að koma íslensku samfélagi á lappirnar.

Margt athyglisvert kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Mér finnst hann ekki fetta fingur út í mörg atriði en eðlilega er hann með sínar vangaveltur og pólitísku skoðanir einnig þegar kemur að nálgun á viðfangsefnið.

Ég hef nokkrar spurningar til hæstv. fjármálaráðherra varðandi afstöðu til ákveðinna þátta í frumvarpinu. Ég spyr: Í ljósi þess að flokkarnir sem og frjáls félagasamtök eins og hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa mismunandi skoðun á því hvernig eigi að leysa skuldavanda heimilanna, hefði ekki verið affarasælast að setja þverpólitískan hóp í þá vinnu til að ná sem breiðastri sátt um það sem okkur skiptir miklu máli í þessu efni? Þ.e. þverpólitískan hóp um skuldir heimilanna. Í öðru lagi, hvert er álit hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) á tillögum okkar um aukningu á aflamarki, þ.e. á þorski, ýsu og ufsa? Í síðara andsvari mínu mun ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra þeirra spurninga sem eftir sitja.